Ari fallinn nema spillingarmálið breyti stöðunni

Ari Freyr Skúlason og félagar hafa ekki átt sjö dagana …
Ari Freyr Skúlason og félagar hafa ekki átt sjö dagana sæla í Belgíu í vetur. mbl.is/Eggert

„Miðað við hvernig tímabilið er búið að vera þá var þetta bara tímaspursmál. Þetta bara búið að vera eitt leiðinlegasta tímabil sem ég hef upplifað, ég verð að vera hreinskilinn með það,“ segir Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu, sem er fallinn úr efstu deild Belgíu með liði sínu Lokeren.

Þar með er reyndar ekki öll sagan sögð. Fjölþætt og mikið hneykslismál hefur sett sterkan svip á belgíska knattspyrnu í vetur og tvö félög í efstu deild, Beveren og Mouscron, auk Mechelen sem keppt hefur um að komast upp úr B-deild, eru til rannsóknar og gætu verið dæmd niður um deildir. Beveren og Mechelen spiluðu leik á síðasta tímabili þar sem talið er að úrslitum hafi verið hagrætt, og lögregla skoðar meint peningaþvætti hjá Mouscron.

„Það er búið að vera fullt af einhverju veseni hérna í Belgíu. Það eru sögusagnir um að við séum kannski ekki að fara að falla eftir allt saman. Einhver félög hérna hafa verið sökuð um „match fixing“ [að hafa ólögleg áhrif á úrslit leikja] og það gæti verið að þau verði send í áhugamannadeildina hérna. En við féllum og það er bara skelfilegt. Við erum búnir að vinna 4 leiki af 28, bara búnir að vera mjög lélegir. Svo hafa verið þjálfaraskipti hingað og þangað sem hjálpar ekki til,“ segir Ari við mbl.is.

Lokeren fór ekki varhluta af hneykslismálinu því þjálfari liðsins í upphafi leiktíðar, Peter Maes, var handtekinn í haust og er hann grunaður um að hafa fengið hundruð milljóna króna greiddar svart, með aðstoð serbneska umboðsmannsins Dejan Veljkovic. Arnar Þór Viðarsson, sem hafði verið aðstoðarþjálfari, tók þá við sem aðalþjálfari í skamman tíma og var svo nýjum þjálfara, Trond Sollied, til aðstoðar þar til þeir voru báðir reknir um miðjan janúar. Arnar hafði þá skömmu áður verið ráðinn þjálfari U21-landsliðs Íslands en Ari segir þá ráðningu engu hafa breytt um ákvörðun Lokeren.

Tímabilinu lokið 17. mars?

Ef ekkert breytist á næstunni er ljóst að tímabilinu hjá Ara og félögum lýkur eftir tvær umferðir, 17. mars. Öll önnur lið í deildinni fara þá í umspil, þar sem lið í efri hluta leika saman og lið í neðri hlutanum leika saman, fram í maí.

Ari Freyr Skúlason á að baki 62 A-landsleiki.
Ari Freyr Skúlason á að baki 62 A-landsleiki. mbl.is/Eggert

„Þetta er mjög steikt. En út af þessu spillingarmáli sem er í gangi þá er Lokeren að vinna í því að við fáum að spila í því sem heitir umspil 2, þar sem liðin í neðri hluta deildarinnar spila. Þá myndum við alla vega fá leiki fram í maí. En ég hef ekki hugmynd um hvernig staðan er á þessu. Það eru bara sögusagnir í gangi. Það væri mjög steikt að klára tímabilið 17. mars og við tækju svo bara æfingar eða frí. Ef þetta spilast þannig þá fer maður bara til einkaþjálfara og heldur sér í eins góðu formi og hægt er fyrir landsleiki,“ segir Ari, en íslenska landsliðið leikur gegn Andorra og Frakklandi 22. og 25. mars, og gegn Albaníu og Tyrklandi snemma í júní, í undankeppni EM.

Ekkert heyrt í Valsmönnum

Ari er væntanlega á förum frá Lokeren í sumar en óvíst er hvað tekur við hjá honum. Hann reiknar fastlega með því að halda áfram í atvinnumennsku og segir ekkert hæft í því að hann sé á leið til Íslandsmeistara Vals.

„Ég er samningslaus í sumar svo að við erum hægt og rólega að reyna að finna góða möguleika fyrir mig og fjölskylduna. Það hafa verið einhverjar þreifingar en ég mun ekki taka neina ákvörðun fyrr en allt er endanlegt. Ef að maður verður kominn í frí í mars þá hefur maður nægan tíma til að finna góðan stað. Ég heyrði að Valur hefði reynt að fá mig en ég hef nú ekki heyrt neitt í þeim. Það eru bara sögusagnir. Ég tel mig geta spilað fótbolta á hæsta stigi í nokkur ár í viðbót og það er markmið númer eitt. Hvar það verður mun bara koma í ljós,“ segir Ari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert