„Hannes er númer eitt“

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. AFP

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir að Hannes Þór Halldórsson sé markvörður númer eitt en Hamrén valdi í dag landsliðshópinn sem mætir Andorra og Frakklandi í undankeppni EM síðar í þessum mánuði.

Hannes Þór, Rúnar Alex Rúnarsson og Ögmundur Kristinsson eru markverðirnir sem voru valdir í landsliðshópinn.

„Markmannastaðan er góð því við erum með þrjá góða markverði. Fyrir mér er Hannes númer eitt en við erum með tvo aðra góða markverði,“ sagði Hamrén þegar hann var spurður á fréttamannafundi í dag hvern hann sjái fyrir sér sem aðalmarkvörð landsliðsins.

Hannes Þór leikur með Qarabag í Aserbaídsjan og hefur ekki spilað leik með liðinu frá því í lok nóvember.
mbl.is