Jóhannes Karl hjá ÍA til 2024

Jóhannes Karl Guðjónsson og Magnús Guðmundsson, formaður KFÍA, handsala samninginn.
Jóhannes Karl Guðjónsson og Magnús Guðmundsson, formaður KFÍA, handsala samninginn. Ljósmynd/kfia.is

Jóhannes Karl Guðjónsson hefur skrifað undir langtímasamning við Knattspyrnufélag ÍA um að þjálfa meistaraflokk karla til næstu fimm ára.

Jóhannes Karl tók við ÍA haustið 2017 eftir að hafa stýrt HK við góðan orðstír. Undir stjórn hans komst ÍA upp í úrvalsdeild síðasta haust með því að vinna 1. deildina. Jóhannes Karl er uppalinn Skagamaður og lék með ÍA áður en hann fór í atvinnumennsku þar sem hann lék með liðum á borð við Real Betis, AZ Alkmaar, Wolves, Burnley og Aston Villa.

„Ég er mjög ánægður með það mikla traust sem mér er sýnt með því að framlengja samninginn minn við ÍA sem þjálfari meistaraflokks karla. ÍA er félagið sem ég er alinn upp í og félagið sem ég hef alltaf litið á sem mitt félag og þar vil ég halda áfram að taka þátt í frábæru starfi. Framtíðin er björt í fótboltanum á Akranesi og fram undan er metnaðarfullt uppbyggingarstarf,“ segir Jóhannes Karl á vef ÍA.

mbl.is