Að spila með ÍA er stór gluggi

Jóhannes Karl Guðjónsson og Magnús Guðmundsson, formaður KFÍA, handsala samninginn.
Jóhannes Karl Guðjónsson og Magnús Guðmundsson, formaður KFÍA, handsala samninginn. Ljósmynd/kfia.is

Það heyrir til undantekninga að þjálfarar geri fimm ára samning við félög sín en sú er staðreyndin á Akranesi því Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari karlaliðs ÍA í knattspyrnu, er búinn að framlengja samning sinn við Knattspyrnufélagið ÍA til fimm ára.

Jóhannes Karl tók við þjálfun Skagaliðsins haustið 2017 og undir hans stjórn tryggði ÍA sér sigur í Inkasso-deildinni á síðustu leiktíð og þetta sögufræga félag leikur því aftur í deild þeirra bestu í sumar.

„Ég er eðlilega himinlifandi með þennan samning. Mig hefur dreymt um það lengi að þjálfa ÍA og nú fæ ég gott tækifæri til að halda áfram þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað hér uppi á Akranesi. Við erum aftur komnir upp í efstu deild og ætlum að koma okkur aftur í hóp þeirra bestu á Íslandi. Ég er því mjög stoltur að hafa fengið það hlutverk að stýra þeirri vinnu með meistaraflokk karla. Þá er eina vitið að fá að geta unnið markvisst til lengri tíma og ég er mjög ánægður með það traust sem stjórnin hefur sýnt mér. Þetta er frábært tækifæri fyrir mig og að fá að taka þátt í þessu uppbyggingarstarfi sem er fram undan er algjör draumur,“ sagði Jóhannes Karl í samtali við mbl.is.

Árni Snær Ólafsson, markvörður og fyrirliði ÍA, lyftir bikarnum fyrir ...
Árni Snær Ólafsson, markvörður og fyrirliði ÍA, lyftir bikarnum fyrir sigur í Inkasso-deildinni á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Með fullrúa í öllum landsliðum

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mikill efniviður er til staðar á Akranesi og margir og ungir og efnilegir leikmenn eru að koma upp sem munu eflaust láta mikið að sér kveða á næstu árum.

„Við erum með fulltrúa í öllum landsliðum karla megin. Við erum með Björn Bergmann og Arnór Sigurðsson í A-landsliðinu, erum með tvo stráka í 21 árs landsliðinu, við erum með fulltrúa í 19 ára landsliðinu, fjóra í 17 ára landsliðinu og þá erum við með stráka í 16 og 15 ára landsliðunum. Þetta er eitthvað sem við ætlum að halda áfram að byggja á. Við viljum gefa strákum snemma tækifæri í meistaraflokknum.

En stundum lendum við í því að bestu og efnilegustu eru seldir til erlendra liða áður en þeir ná að verða lykilmenn í meistaraflokki og þar má nefna leikmenn eins og Arnór, Ísak og Oliver. Samhliða því að vera að byggja upp til framtíðar og koma okkur í röð þeirra bestu þá viljum gefa strákum tækifæri að ná sínum markmiðum og upplifa sína drauma að komast í atvinnumennsku, vera í landsliðunum og komast á endanum í A-landsliðið. Þessi blanda að hjálpa ungum strákum að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki út í erfiðan heim atvinnumennskunnar er fyrir mér algjört draumastarf,“ segir Jóhannes Karl.

Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Treystum á það í rekstri okkar að selja leikmenn

Hvað sérð þú fyrir þér langan tíma að koma ÍA aftur í fremstu röð?

„Þessi framtíðarsýn sem við erum með tengist þessum fimm ára samningi sem ég hef gert. Auðvitað geta hlutirnir verið fljótir að breytast í fótbolta til hins betra og jafnvel til hins verra. En innan þessa tímaramma viljum við vera komnir aftur í toppbaráttu á Íslandi. Það eru allar forsendur fyrir því. Við treystum á það í rekstri að selja leikmenn. Við höfum ekki sama stuðning og kannski önnur lið á höfuðborgarsvæðinu sem eru með stærri styrktaraðila. Meðan það er að heppnast ágætlega þá getum við verið þokkalega samkeppnishæfir en grunnurinn þarf alltaf vera heimamenn. Það er okkar sérstaða og okkar samheldni og styrkur felst í að umgjörðin og grunnurinn eru heimamenn í bland við aðra leikmenn sem efla þá sem fyrir eru og gera þá betri þá sækjum við leikmenn í þau hlutverk.

Við viljum líka sækja til okkar unga og efnilega stráka sem sjá tækifæri í því að koma á Skagann og taka þátt í þessu starfi með okkur og auka líkurnar á að þeir nái langt í fótboltanum. Við erum með frábært starf fyrir stráka sem eru komnir á menntaskólaaldur. Þeir eru í góðu og faglegu umhverfi hjá okkur og eiga möguleika að spila með meistaraflokki snemma og komast svo kannski utan. Við viljum sækja leikmenn sem hafa metnað til að komast enn þá lengra og komast í atvinnumennsku. Að spila með ÍA er stór gluggi því það eru lið út um allan heim sem hafa fylgst með okkur í nokkurn tíma. Það hefur vakið mikla athygli hvað við höfum búið til marga atvinnumenn miðað hvað við erum lítið bæjarfélag,“ sagði Jóhannes Karl þjálfari ÍA við mbl.is.

mbl.is