Thomsen kaffærði Þrótt og skaut KR í undanúrslit

Tobias Thomsen fór illa með Þróttara.
Tobias Thomsen fór illa með Þróttara. mbl.is/Árni Sæberg

KR-ingar urðu fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum deildabikars karla í knattspyrnu, Lengjubikarsins, þegar þeir unnu stórsigur á Þrótti úr Reykjavík, 5:0, á Eimskipsvellinum í Laugardal.

Tobias Thomsen sá um að skjóta Þróttara í kaf því hann skoraði fjögur mörk á sextán mínútna kafla í seinni hluta fyrri hálfleiks.  Þar við sat fram á 83. mínútu þegar Kennie Chopart innsiglaði sigur KR-inga með fimmta markinu.

Þeir fengu þar með 13 stig í riðlinum en Fylkir varð í öðru sæti með 11 stig.

KR mætir FH í undanúrslitum og ÍA mætir KA en áætlað er að leikirnir fari fram næsta laugardag, 23. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert