Óvíst hvernig KSÍ bregst við ummælunum

Þórarinn Ingi Valdimarsson með boltann í leik með Stjörnunni.
Þórarinn Ingi Valdimarsson með boltann í leik með Stjörnunni. mbl.is//Hari

Ekki er komið á hreint hvort fordómafull ummæli sem Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar, lét falla í garð Ingólfs Sigurðssonar í leik gegn Leikni R. í Lengjubikarnum á dögunum verði tekin fyrir af KSÍ.

Þórarinn Ingi lét fordómafull ummæli falla um geðsjúkdóma í garð Ingólfs, sem hefur talað opinskátt um baráttu sína við geðsjúkdóma. Þorvaldur Árnason dómari heyrði ummælin og rak Þórarin umsvifalaust af velli með rautt spjald.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir við mbl.is að skýrsla dómara hafi ekki borist skrifstofunni og því sé ekki ljóst á þessari stundu hvort og þá í hvaða ferli þetta mál fer. Skýrslunni verði vísað til aganefndar ef þurfa þykir og svo væri það nefndin sem skoðar hvað hún gerir í málinu.

„Aga- og úrskurðarnefnd hefur að mínu álita klára lögsögu að taka þetta mál fyrir,“ segir Klara.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Golli

Fordæmi að flytja leikbönn milli móta

Þar sem rautt spjald fór á loft ætti Þórarinn undir venjulegum kringumstæðum því að fá sjálfkrafa leikbann. Þetta var hins vegar síðasti leikur Stjörnunnar í Lengjubikarnum í ár og því ætti hann ekki að taka út leikbannið fyrr en í febrúar á næsta ári, þar sem spjöldin á undirbúningstímabilinu gilda ekki á Íslandsmótinu.

„Við þykjumst muna eftir því að það séu fordæmi fyrir því að leikbönn hafi verið flutt frá deildabikar og yfir á Íslandsmót. Ég get ekki fullyrt um hvort það eigi við í þessu máli eða ekki,“ segir Klara, en undirstrikar að það sé aganefnd sem fjallar um mál sem þessi og úrskurðar. Hún starfi óháð skrifstofu KSÍ.

Aðspurð hvort einhver reglugerð sé hjá KSÍ um fordómafull ummæli nefnir Klara kafla sem tekur fyrir mismunun. Þar segi meðal annars að hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi „...varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt og stöðu að öðru leyti, skal sæta leikbanni í að minnsta kosti fimm leiki.“

Klara segist þó ekki geta svarað því hvort aganefndin meti það svo að þetta mál falli undir þessa grein um mismunun. Þar sem skýrslan hefur ekki borist er ekki hægt að fullyrða í hvaða ferli þetta mál fer.

Þórarinn baðst afsökunar

Þórarinn Ingi tjáði sig á Twitter-síðu sinni nú síðdegis þar sem hann viðurkennir sök í málinu.

„Í leik Stjörnunnar og Leiknis missti ég stjórn á skapi mínu og lét orð falla sem eiga ekki heima inni á fótboltavelli. Orð sem eru mér ekki sæmandi. Ég fékk verðskuldað rautt spjald. Strax eftir leik talaði ég við viðkomandi aðila og baðst afsökunar á því. Fyrir mér lauk málinu þar og skildum við sáttir,“ skrifar Þórarinn á Twitter-síðu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert