Þórarinn Ingi biðst afsökunar

Þórarinn Ingi Valdimarsson í leik með Stjörnunni.
Þórarinn Ingi Valdimarsson í leik með Stjörnunni. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar í knattspyrnu, hefur beðist afsökunar á ummælum sem hann lét falla í leik gegn Leikni R. í Lengjubikarnum fyrir helgi. Hann segir málinu lokið af sinni hálfu.

Þórarinn Ingi lét þá fordómafull ummæli falla um geðsjúkdóma í garð Ingólfs Sigurðssonar, leikmanns Leiknis. Þorvaldur Árnason dómari heyrði ummælin og rak Þórarin umsvifalaust af velli með rautt spjald.

„Í leik Stjörnunnar og Leiknis missti ég stjórn á skapi mínu og lét orð falla sem eiga ekki heima inni á fótboltavelli. Orð sem eru mér ekki sæmandi. Ég fékk verðskuldað rautt spjald. Strax eftir leik talaði ég við viðkomandi aðila og baðst afsökunar á því. Fyrir mér lauk málinu þar og skildum við sáttir,“ skrifar Þórarinn á Twitter-síðu sína.

mbl.is