Ánægður og ber virðingu fyrir hans vali

Aron Einar Gunnarsson á landsliðsæfingu í dag.
Aron Einar Gunnarsson á landsliðsæfingu í dag. mbl.is/Sindri

„Fyrst og fremst er ég ánægður fyrir hans hönd,“ segir Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í knattspyrnu, um þá ákvörðun landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar að semja við Al Arabi í Katar til tveggja ára.

Aron, sem verður þrítugur í næsta mánuði, hefur leikið með Cardiff og Coventry á Englandi síðasta áratuginn en var áður hjá AZ í Hollandi. Þangað fór hann frá Þór á Akureyri árið 2006. Alfreð vonast til þess að Aron verði sem lengst í landsliðinu og segir ákvörðun hans geta hjálpað til í því sambandi:

„Maður á alltaf að bera virðingu fyrir ákvörðunum leikmanna því maður veit að það liggur ekki alltaf fyrir hvað er á bak við þær. Menn eldast misfljótt og hann er náttúrulega búinn með einhverja 1.000 leiki í Championship-deildinni þannig að ég get alveg ímyndað mér að það taki sinn toll af líkamanum,“ segir Alfreð við mbl.is á hóteli landsliðsins hér í Peralada.

„Hann er væntanlega að hugsa um hvað sé best fyrir sinn feril og sína fjölskyldu. Ég er ánægður með og ber virðingu fyrir hans vali, og vona innilega að hann geti nýst okkur í 6-7 ár í viðbót í landsliðinu með því að fara þangað,“ segir Alfreð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert