Ari faðmaði og kvaddi til öryggis

Ari Freyr Skúlason og Birkir Már Sævarsson héldu bolta á ...
Ari Freyr Skúlason og Birkir Már Sævarsson héldu bolta á lofti á æfingu í Peralada í dag. mbl.is/Sindri

„Það er engin yfirlýsing komin frá mér eða félaginu en ég vildi þakka fyrir þessi þrjú ár sem ég hef verið hjá félaginu,“ segir Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu, sem sennilega er á förum frá belgíska félaginu Lokeren í sumar.

Lokeren er fallið niður um deild en eins og fram hefur komið er hugsanlegt að félagið haldi sæti sínu í efstu deild vegna spillingarmála í öðrum félögum, sem eru til rannsóknar. Ekkert er þó víst í þeim efnum. Samningur Ara við Lokeren rennur út í sumar og eftir síðasta leik liðsins á tímabilinu, 3:1-sigur á Cercle Brugge, mátti sjá Ara faðma hvern stuðningsmann liðsins á fætur öðrum og þakka fyrir sig, eins og fyrr segir:

„En svo getur vel verið að maður verði þarna áfram. En ég var þakklátur fyrir stuðninginn sem við höfum fengið á þessu erfiða tímabili og þetta fólk átti meira skilið,“ segir Ari.

Ekki sitja uppi í sófa og borða

Ari er í íslenska landsliðshópnum hér í Peralada á Spáni sem mætir Andorra á föstudag og Frakklandi næsta mánudag. Eftir landsleikina er hann í raun hálfpartinn kominn í sumarfrí. Hins vegar eru landsleikir á dagskránni í júní og Ari vill vera klár í slaginn þegar að þeim kemur.

„Við [í Lokeren] munum æfa þrisvar í viku eftir landsleikjahléið í svona einn mánuð. Þetta er stórfurðuleg staða. En strákarnir í landsliðinu sem hafa verið að spila í Championship-deildinni þekkja það að vera komnir í sumarfrí fyrstu vikuna í maí. Maður þarf bara að halda sér í eins góðu formi og hægt er, taka aukaæfingar og fara til einkaþjálfara en ekki sitja uppi í sófa og borða. En þetta verður eitthvað nýtt fyrir manni,“ segir Ari við mbl.is.

mbl.is