„Frábært að svona sé umræðan“

Ari Freyr Skúlason á æfingu í Peralada í dag.
Ari Freyr Skúlason á æfingu í Peralada í dag. mbl.is/Sindri

„Núna er maður búinn að upplifa EM og HM og þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert í fótboltanum þannig að við viljum allir fara aftur. Það eru skýr skilaboð frá þjálfurunum og okkur sjálfum að við ætlum okkur á EM,“ segir Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu.

Ísland mætir Andorra í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2020 á föstudaginn. Íslenska landsliðið hefur ekki fagnað sigri í rúmt ár en Ari segir það ekki sitja í leikmönnum, enda leikjadagskráin aldrei erfiðari en á síðasta ári.

„Ég hef alla vega ekki fundið fyrir því að þetta hafi áhrif á okkur. Við höfum verið að spila risaleiki, gegn Belgum og Sviss sem endaði nú á að snýta Belgum. Mér finnst bara frábært að svona sé umræðan. Að svona mikils sé ætlast til af okkur. Það sýnir hvað við höfum tekið stór skref síðustu ár og hve miklum framförum Ísland hefur tekið, bæði karla- og kvennamegin. Það er pressa á okkur, og líka frá okkur sjálfum. Við ætlum að vinna alla leiki. Auðvitað er ömurlegt að tapa, ég ætti að vita það eftir þetta tímabil í vetur þar sem við unnum 4 eða 5 leiki af 30. En við ætlum að leggja allt í sölurnar og byrja þessa undankeppni á sigri,“ segir Ari.

Þurfum góða byrjun eins og síðast

Ísland keppir um tvö efstu sætin í sínum riðli en þeim fylgir farseðill á EM 2020. Með Íslandi og Andorra í riðli eru heimsmeistarar Frakka, Tyrkland, Albanía og Moldóva.

„Þetta er þokkalega skemmtilegur riðill að eiga við. Þetta eru erfiðir útileikir, en við þurfum að vera eins sterkir varnarlega og við getum því við getum alltaf skapað mörk. Við erum með leikmenn sem geta skorað úr aukaspyrnum og geta sjálfir búið sér til færi. Ég tel möguleikana okkar góða en við þurfum að eiga góða byrjun, eins og við áttum í síðustu tveimur undankeppnum. Mér er alveg sama hvernig við vinnum, hvort sigurinn er ljótur eða ekki, lykilatriðið er að byrja þessa undankeppni vel,“ segir Ari við mbl.is á hóteli landsliðsins í Peralada á Spáni, en þar undirbýr landsliðið sig fram á fimmtudag.

Árangur okkar gefur þeim aukabúst

Andorra er lágt skrifað á heimslista en hefur þó farið upp um rúm 70 sæti á síðustu tveimur árum og er í 132. sæti, en liðið er sérstaklega erfitt heim að sækja. Ekki eru ýkja mörg ár síðan Ísland var á svipuðum slóðum á heimslistanum og blaðamaður spurði Ara hvort hann gæti einhvern veginn sett sig í spor Andorramanna og hvernig þeir horfðu til leiksins á föstudag:

„Menn fara í alla fótboltaleiki til að vinna og sjá sína möguleika, en miðað við hvernig við höfum staðið okkur síðustu ár þá mun enginn vanmeta okkur. Það yrði bara enn þá skemmtilegra fyrir Andorra að vinna okkur fyrst við höfum verið á síðustu tveimur stórmótum. Það gefur þeim aukabúst. En svo lengi sem við höldum okkar taktík og spilum okkar leik þá finnst mér að við eigum að vinna þetta lið. Það verður hins vegar þrautin þyngri,“ segir Ari. Leikmenn Andorra koma til með að reyna allt til að tefja leikinn eins og Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari hefur bent á:

„Það er líka undir dómaranum komið, hve mikið hann leyfir. En við megum ekki pirra okkur á þessu heldur einbeitum okkur að því sem við ætlum að gera. Við þurfum ekki að þvinga inn mark eftir tvær mínútur, leikurinn er 90 mínútur og rúmlega það, og við þurfum að halda okkar leik og vera agaðir,“ segir Ari.

Auðvitað pirrandi en þá styður maður næsta mann

Ari var fastamaður í byrjunarliði landsliðsins þar til í undankeppni HM er Hörður Björgvin Magnússon tók við stöðu vinstri bakvarðar. Eiður Smári Guðjohnsen lét á sínum tíma hafa eftir sér að Ari hefði í raun aldrei spilað sig út úr landsliðinu, svona hefðu hlutirnir einfaldlega atvikast. Ari fer sjálfur varlega í að gera kröfu um sæti í byrjunarliðinu:

„Ég hef verið notaður í hinum og þessum stöðum þegar það eru meiðsli og þannig er það bara. Ef þjálfarinn segir mér að spila sem hafsent þá geri ég það. Ég segi aldrei nei. Þetta er landsliðið og maður vill auðvitað spila hvern einasta leik. Auðvitað var pirrandi og svekkjandi að missa sæti sitt í síðustu undankeppni en við erum lið og þá styður maður bara næsta mann. Við komumst á HM og það var númer eitt, þó að maður hafi auðvitað viljað spila meira eins og allir í liðinu,“ segir Ari og fer einnig varlega aðspurður hvort hans hæfileikar henti ekki vel gegn Andorra: „Ég þekki Andorra-liðið ekkert geðveikt vel en ég vona bara að ég fái að spila, sama í hvaða stöðu það er, og vonandi get ég hjálpað liðinu að taka þrjú stig í fyrsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert