Ísland getur valið 10 en við einn

Koldo Álvarez, þjálfari Andorra.
Koldo Álvarez, þjálfari Andorra. AFP

Íslenska landsliðið var Koldo Álvarez, þjálfara Andorra, þegar hugleikið á síðasta ári, mánuðum áður en ljóst varð að liðin myndu mætast í fyrstu umferð undankeppni EM karla í knattspyrnu.

Ísland og Andorra mætast á föstudagskvöld í Andorra la Vella, höfuðborg þessa 77.000 manna smáríkis sem liggur á landamærum Spánar og Frakklands. Andorra er aðeins í 132. sæti styrkleikalista FIFA en það þykir ekki slæmt í ljósi þess að liðið var fyrir neðan 200. sæti fyrir tveimur árum. Athyglisverð úrslit á síðustu árum sýna að liðið er orðið mun samkeppnishæfara en áður. Í fyrra lék liðið fimm leiki í röð án þess að tapa, gerði til að mynda jafntefli við Kasakstan og Lettland auk þess að vinna Liechtenstein, og það fékk blaðamann AS á Spáni til þess að vilja fjalla um árangurinn:

„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að við næðum svona langri runu af já­kvæðum úr­slit­um,“ sagði Kol­do við AS í fyrrahaust, en hann hef­ur verið landsliðsþjálf­ari frá árinu 2010. Hann sagði að knatt­spyrnu­sam­band Andorra hefði ráðist í ýms­ar fjár­fest­ing­ar til að byggja upp unga leik­menn og efla landsliðið, og að það hefði skilað sér. Hafa verði í huga að Andorra hafi ekki úr sama leik­manna­úr­vali að velja og flest­ar aðrar þjóðir, og tók gamli landsliðsmarkvörðurinn Ísland sem dæmi.

„Við höf­um ekki sama fjölda leik­manna og önn­ur lið. Út frá fólksfjölda þá getur Ísland til að mynda valið á milli 10 leik­manna í stöðu á meðan við get­um valið einn,“ sagði Koldo, en reynd­ar eru Íslend­ing­ar aðeins rúm­lega fjór­um sinn­um fleiri en íbú­ar Andorra. „Með þetta í huga hjálp­ar mikið við að bæta sam­keppn­ina hversu marg­ir ung­ir leik­menn eru að koma upp,“ sagði Koldo.

Andorra lauk svo árinu 2018 á því að gera jafntefli við Georgíu og Lettland á heimavelli sínum í Andorra, þar sem liðið hefur nú aðeins tapað einum af síðustu sex leikjum, 2:0 gegn Evrópumeisturum Portúgals í undankeppni HM.

Íslenska landsliðið æfði í Peralada á Spáni í dag en …
Íslenska landsliðið æfði í Peralada á Spáni í dag en rúmlega þriggja tíma akstur er þaðan til Andorra. Þangað heldur íslenski hópurinn á fimmtudag en leikurinn við Andorra er á föstudag. mbl.is/Sindri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert