Tíu í stúkunni og ekkert sem benti til landsleiks

Rúnar Már Sigurjónsson með boltann á lofti á æfingu landsliðsins …
Rúnar Már Sigurjónsson með boltann á lofti á æfingu landsliðsins í Peralada í dag. mbl.is/Sindri

„Við megum ekki láta það fara í taugarnar á okkur hvað þeir gera til að skemma leikinn,“ segir Rúnar Már Sigurjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, fyrir leikinn við Andorra í undankeppni EM á föstudaginn.

Leikmenn og þjálfarar íslenska liðsins búa sig undir afar snúið verkefni á gervigrasinu í Andorra la Vella á föstudaginn, þar sem heimamenn eru þekktir fyrir að beita öllum brögðum til þess að tefja leikinn og kreista fram góð úrslit, eins og þeim hefur svo sannarlega tekist á síðustu tveimur árum.

Þeir brjóta mikið og leggjast í vörn

„Við eigum eftir að sjá frá þjálfurunum meira um hvernig þeir spila og hvað þeir gera til að ná í úrslit. Við þurfum að bera virðingu fyrir því hvernig þeir ná í sín úrslit. Þeir gera það með því að brjóta mikið og leggjast í vörn. Áður fyrr gerðu þeir það ekki og töpuðu öllum leikjum. Við verðum bara að einbeita okkur að því hvernig við ætlum að spila og láta það ekki fara í taugarnar á okkur hvað þeir gera til að skemma leikinn. Ef við gerum okkar hluti rétt þá eigum við að vinna þennan leik,“ segir Rúnar og hefur ekki áhyggjur af því að einhver í íslenska liðinu missi stjórn á skapi sínu við þessar aðstæður:

„Við erum með hóp sem býr yfir mikilli reynslu og þetta lið hefur spilað lengi saman. Við erum ekki þekktir fyrir annað en að halda haus, menn eru sterkir andlega og ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessum þætti.“

Á góðar minningar úr þessari ferð

Rúnar hefur unnið sér sæti í íslenska landsliðshópnum á nýjan leik eftir að hafa ekki verið í HM-hópnum sem fór til Rússlands í fyrrasumar. Þessi 28 ára Sauðkrækingur átti mjög flotta leiki í Þjóðadeildinni í fyrrahaust og hefur alls leikið 19 A-landsleiki. Hans fyrsta og eina landsliðsmark kom í frumrauninni í landsliðsbúningnum, sem var einmitt í Andorra síðla árs 2012. Rúnar man ágætlega eftir fyrsta landsleiknum:

„Þegar maður var lítill og hugsaði um að spila með landsliðinu þá sá maður fyrir sér stóra stund, stærra umfang og betri aðstæður, en svo var þetta í Andorra þar sem voru svona 10 manns í stúkunni og í raun engin tilfinning fyrir því að maður væri að spila sinn fyrsta landsleik. Það kannski bara hjálpaði. Ég man þó ekki mikið úr leiknum en hann var ekki mikið fyrir augað, eins og margir leikir hjá Andorra. Auðvitað var gaman að skora samt og ég á góðar minningar úr þessari ferð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert