Valur stöðvaði Blika og tryggði toppsætið

Valur fagnaði sigri á Breiðabliki í kvöld.
Valur fagnaði sigri á Breiðabliki í kvöld. mbl.is/Hari

Valskonur urðu í kvöld fyrstar til þess að stöðva Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks í Lengjubikarnum í knattspyrnu. Liðin mættust á Hlíðarenda og vann Valur 3:1.

Margrét Lára Viðarsdóttir kom Val yfir strax á þriðju mínútu leiksins en Agla María Albertsdóttir jafnaði fyrir Blika rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Staðan 1:1 í hálfleik.

Í síðari hálfleik komst Valur yfir á ný eftir rúmlega klukkutíma leik með sjálfsmarki Kristínar Dísar Árnadóttur í liði Blika, en 3:1-sigurinn var svo innsiglaður fimm mínútum fyrir leikslok. Þar var að verki Elín Metta Jensen.

Valur fór í gegnum riðilinn með fullt hús stiga, 15 stig úr fimm leikjum, og tryggði því um leið toppsætið með sigrinum í kvöld. Blikar eiga enn tvo leiki eftir, en hafa unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum og eru með sex stig. Þór/KA og Stjarnan hafa fjögur stig en ÍBV og Selfoss eru án stiga.

Efstu fjögur liðin mætast í undanúrslitum og sigurliðin svo í úrslitaleik.

mbl.is