Viðar kallaður inn í landsliðshópinn

Viðar örn Kjartansson skorar í vináttulandsleik gegn Katar fyrir hálfu …
Viðar örn Kjartansson skorar í vináttulandsleik gegn Katar fyrir hálfu öðru ári. AFP

Viðar Örn Kjartansson hefur verið kallaður inn í landsliðshóp Íslands í knattspyrnu sem nú dvelur í Peralada á Norður-Spáni til undirbúnings fyrir leikina gegn Andorra og Frakklandi í undankeppni heimsmeistaramótsins.

KSÍ greindi frá þessu fyrir stundu en ekki kemur fram að neinn leikmaður hafi helst úr lestinni. Alfreð Finnbogason og Björn Bergmann Sigurðarson voru einu framherjarnir í 23 manna hópnum sem Erik Hamrén valdi til ferðarinnar.

Viðar tilkynnti í október, eftir leiki við Frakkland og Sviss þar sem hann var í hópnum en kom ekkert við sögu, að hann myndi ekki gefa kost á sér í landsliðið. Hann dró síðan heldur úr því og sagði um tímabundna ákvörðun að ræða vegna erfiðleika við að komast í liðið hjá Rostov í Rússlandi. Nú hefur hann verið lánaður þaðan til Hammarby í Svíþjóð.

Viðar hefur leikið 19 A-landsleiki og skorað í þeim tvö mörk en hefur verið mjög marksækinn með félagsliðum sínum undanfarin ár og hefur gert 80 mörk í efstu deildum Noregs, Kína, Svíþjóðar og Ísraels á undanförnum fimm árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert