„Ekki gerður fyrir heitu löndin“

Aron Einar makar sólarvörn á skallann í hitanum á HM …
Aron Einar makar sólarvörn á skallann í hitanum á HM í Rússlandi í fyrrasumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er bara fínt fyrir hann,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson um þá ákvörðun félaga síns á miðjunni hjá íslenska landsliðinu í knattspyrnu að semja við Al Arabi í Katar til næstu tveggja ára.

Gylfi og Aron hafa báðir leikið í ensku úrvalsdeildinni í vetur en Aron yfirgefur England í sumar og heldur til gamla landsliðsþjálfarans Heimis Hallgrímssonar sem tók við Al Arabi í vetur. Gylfi gleðst fyrir hönd landsliðsfyrirliðans:

„Við höfum oft rætt þetta. Hann er búinn að vera í Championship-deildinni í mörg ár og það tekur mjög mikið á. Hann finnur alveg fyrir því. En það eru spennandi tímar fram undan hjá honum og vonandi líður honum vel í sólinni,“ sagði Gylfi léttur við íslenska fjölmiðla á æfingu landsliðsins í Peralada á Spáni í dag. Íslenska liðið undirbýr sig þar fyrir leik við Andorra á föstudag og Frakkland á mánudag í undankeppni EM. Aðspurður í léttum tón hvort sterk sólin í Katar gæti ekki leikið Aron grátt svaraði Gylfi í svipuðum tón og brosti:

„Hann er ekki gerður fyrir heitu löndin en hann veit af því sem betur fer. Þeir æfa seint á daginn þannig að þetta sleppur örugglega hjá honum.“

Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson á æfingu íslenska …
Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson á æfingu íslenska landsliðsins í Peralada. mbl.is/Sindri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert