Geðhjálp ósátt við væga refsingu Þórarins

Þórarinn Ingi Valdimarsson í leik með Stjörnunni.
Þórarinn Ingi Valdimarsson í leik með Stjörnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landssamtökin Geðhjálp eru ósátt við þá refsingu sem Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar, hlaut fyrir fordómafull ummæli í garð Ingólfs Sigurðssonar, leikmanns Leiknis R., er liðin mættust í Lengjubikarnum í fótbolta um helgina. 

Ingólfur hefur opinskátt rætt um andleg veikindi sín og fékk Þórarinn rauða spjaldið fyrir ljót ummæli um þau. Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ ákvað hins vegar ekki að refsa Þórarni frekar og fékk hann því aðeins hefðbundið eins leiks bann fyrir að fá rautt spjald og tekur bannið ekki út fyrr en í febrúar árið 2020. 

Geðhjálp setti færslu á Facebook í dag, þar sem lýst er yfir furðu þess efnis. Er tekið fram að leikmaðurinn ætti að fá að minnsta kosti fimm leikja bann, vera bannaður frá viðkomandi leikvelli og að félagið skuli fá sekt að lágmarki 100.000 krónur, miðað við reglugerð aga- og úrskurðarnefndar.

Færsla Geðhjálpar í heild sinni:

Geðhjálp veltir því fyrir sér hvers virði kjörorð KSÍ „Knattspyrna - leikur án fordóma“ sé þegar aganefnd sambandsins sér ekki ástæðu til að beita vægustu viðurlögum við fordómafullum ummælum gagnvart fólki með geðrænan vanda.

Aganefndin ákvað að Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar, fengi aðeins hefðbundið eins leiks bann vegna rauðs spjalds fyrir fordómafull ummæli í garð Ingólfs Sigurðssonar, leikmanns Leiknis, þótt 16. grein reglugerðar um aga- og úrskurðarmál veiti nefndinni býsna víðtækar heimildir til frekari viðurlaga.

Meðal annars er sagt þar að „Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt, og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti 5 leiki og banni frá viðkomandi leikvelli. Jafnframt skal félag viðkomandi sæta sekt að lágmarki að upphæð kr. 100.000.“

mbl.is