Ætla ekki að tala neitt um peninga

Aron Einar Gunnarsson á æfingu á Spáni.
Aron Einar Gunnarsson á æfingu á Spáni. mbl.is/Sindri

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, skrifaði í vikunni undir samning við Al Arabi, sem spilar í efstu deild Katars. Heimir Hallgrímsson er þjálfari Al Arabi. Aron ræddi við fjölmiðla á blaðamanna­fundi í Andorra la Vella fyrir leikinn við Andorra í undankeppni EM annað kvöld. 

„Samningurinn minn hjá Cardiff var að klárast í sumar og ég ákvað að fara til liðs við minn gamla landsliðsþjálfara. Ég hlakka til þessarar áskorunar hjá félagi sem er á uppleið og var áður mjög hátt skrifað. Við ætlum okkur að koma stuðningsmönnum aftur á völlinn. Fótboltinn er á uppleið í Katar og HM þar eftir nokkur ár, og ég hlakka mikið til,“ sagði Aron á fundinum.

Aron vill lengja landsliðsferilinn sem og feril sinn yfir höfuð með að ganga í raðir Al Arabi.  

„Það er ekki jafnmikið álag þarna og tempó eins og á Englandi. Níu ár í Championship (ensku B-deildinni) og tvö önnur í úrvalsdeildinni hafa tekið sinn toll. Þetta er klárlega líka gert upp á það að gera, að lengja ferilinn um nokkur ár. Vonandi nýtist það landsliðinu í framtíðinni,“ sagði fyrirliðinn, en hann vildi ekki tala um samninginn sinn. 

„Ég ætla ekki að tala neitt um peninga þegar kemur að þessu. Ég hlakka bara til að takast á við þetta. Nýja áskorun í öðruvísi menningu. Það heillaði mig líka, í stað þess að vera bara í Englandi og gera áfram það sama,“ segir Aron, spurður um hvort hann hafi verið að skrifa undir sinn besta samning.

mbl.is