Hildigunnur tryggði sigur á Ítölum

Stúlknalandsliðið fyrir vináttuleik gegn Írum í síðasta mánuði.
Stúlknalandsliðið fyrir vináttuleik gegn Írum í síðasta mánuði. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska stúlknalandsliðið í knattspyrnu, skipað stúlkum 17 ára og yngri, vann glæsilegan sigur í dag á Ítölum, 2:1, í fyrsta leik sínum í milliriðli Evrópukeppninnar í þessum aldursflokki en leikið var í San Giuliano á Ítalíu.

Ísland komst yfir undir lok fyrri hálfleiks með sjálfsmarki en Ítalir jöfnuðu snemma í seinni hálfleik. Allt stefndi í jafntefli en á 88. mínútu skoraði Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir sigurmark Íslands. Hún hafði skömmu áður komið inn á sem varamaður í sínum fyrsta landsleik.

Danmörk og Slóvenía eru einnig í riðlinum og mætast síðar í dag. Sigurlið riðilsins kemst í úrslitakeppni EM í sumar. Ísland mætir Danmörku á sunnudaginn og Slóveníu í lokaumferðinni á miðvikudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert