Alfreð er næstreynsluminnstur

Alfreð Finnbogason spilar 53. landsleikinn í kvöld og aðeins Arnór …
Alfreð Finnbogason spilar 53. landsleikinn í kvöld og aðeins Arnór Sigurðsson á færri leiki að baki. AFP

Ísland teflir fram reyndasta landsliði sínu frá upphafi gegn Andorra í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu í Andorra la Vella í kvöld.

Tíu af ellefu leikmönnum í byrjunarliði Íslands hafa leikið meira en 50 landsleiki og það er aðeins hinn kornungi Arnór Sigurðsson, sem spilar sinn þriðja landsleik, sem kemst ekki í þann hóp.

Alfreð Finnbogason, sem varð þrítugur í síðasta mánuði, er næstreynsluminnstur í liðinu miðað við fjölda landsleikja en hann spilar sinn 53. landsleik í kvöld.

Birkir Már Sævarsson kemst í kvöld í 2.-3. sætið yfir leikjahæstu landsliðsmenn Íslands frá upphafi. Birkir spilar sinn 89. landsleik og nær með því Hermanni Hreiðarssyni en Rúnar Kristinsson, faðir Rúnars Alex Rúnarssonar varamarkvarðar landsliðsins, á leikjametið sem er 104 landsleikir.

Níu af þeim ellefu sem hefja leikinn hafa spilað 300 deildaleiki eða meira með sínum félagsliðum á ferlinum, allir nema Alfreð og Arnór, og það er nýtt met hjá landsliðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert