Eigum eitthvað inni fyrir mánudaginn

Gylfi Þór Sigurðsson stýrði sóknarleik íslenska landsliðsins í kvöld gegn ...
Gylfi Þór Sigurðsson stýrði sóknarleik íslenska landsliðsins í kvöld gegn Andorra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög sáttur og þessi leikur spilaðist nákvæmlega eins og við áttum von á,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við RÚV eftir 2:0-sigur liðsins gegn Andorra í fyrsta leik íslenska liðsins í undankeppni EM á Andorra á Estadi Nacional vellinum í Andorra la Vella í kvöld.

„Þetta var ekki þessi hefðbundni landsleikur en við gerðum þetta vel. Við töluðum um það fyrir leik að það væri mikilvægt að skora snemma og það tókst. Eftir það vorum við með fulla stjórna á leiknum og mér fannst sigurinn í raun aldrei vera í hættu.“

Ísland mætir Frökkum þann 25. mars næstkomandi á Stade de France í París og viðurkennir Gylfi að sá leikur verði mun erfiðari.

„Það verður allt öðruvísi leikur. Við erum að fara mæta frábæru liði en það var fínt að klára leikinn í kvöld á 2:0-sigri og við spiluðum leikinn af 70% krafti og við ættum því að eiga eitthvað inni fyrir leikinn á mánudaginn,“ sagði Gylfi Þór.

mbl.is