„Fyndið hvað er búið að búa til varðandi þetta“

Aron Einar Gunnarsson í baráttu um boltann í leiknum í …
Aron Einar Gunnarsson í baráttu um boltann í leiknum í Andorra í kvöld. AFP

„Ég verð klár á móti Frökkum, það er hundrað prósent,“ segir Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, en hann var ánægður með frammistöðu íslenska liðsins í 2:0-sigri á Andorra í Andorra la Vella í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur Íslands í undankeppni EM en liðið mætir svo heimsmeisturum Frakka í París á mánudaginn.

„Ég er ánægður með hvernig við stóðum að þessu. Þetta var fagmannlega klárað hjá okkur. Tvö mörk, héldum hreinu, ekkert gult spjald og þrjú stig. Allt sem við lögðum upp með. Við vissum að þetta yrði þolinmæðisvinna en við fengum þó mikið af færum í fyrri hálfleik og hefðum átt að vera komnir í þægilegri stöðu, sérstaklega því við vissum að þeir spiluðu upp á föst leikatriði og væru góðir í þeim. Við höfðum undirbúið okkur vel og ég er ánægður með hvernig við stóðum okkur í þessum leik,“ sagði Aron. Sjá mátti hann hlæja að tilburðum Andorramanna sem reyndu allt til þess að pirra andstæðinga sína og tefja leikinn:

„Við vissum það. Freysi og Erik fóru báðir yfir það fyrir leik að við þyrftum að halda haus og láta ekki neitt utanaðkomandi fara í taugarnar á okkur. Við hefðum getað verið erfiðari og reiðari, farið í fýlu og svekkt okkur, en mér fannst við höndla þetta mjög vel. Við forðuðumst það að fá gult spjald fyrir pirring eða eitthvað slíkt,“ sagði Aron.

Ég er vanur þessu með Cardiff

Á blaðamannafundi í gær vildi Aron ekki staðfesta að hann myndi spila leikinn, sem fram fór á slæmum gervigrasvelli.

„Ég æfði hérna í gær og leið bara vel eftir æfingu, og ákvörðunin var tekin eftir það. Við gátum ekkert gefið upp á blaðamannafundinum hvort ég myndi byrja eða ekki. Líkaminn er ágætur núna, þetta tekur aðeins í því undirlagið á gervigrasinu er ekki frábært. Verra en fólk kannski heldur. En við ætluðum ekki að fara að kvarta neitt of mikið yfir því, þó að þjálfarinn kæmi aðeins inn á það,“ sagði Aron, sem brosti aðspurður hvort hann væri sem sagt alveg örugglega tilbúinn aftur í leik á mánudag:

„Það er fyndið hvað er búið að búa til varðandi þetta. Ég er búinn að gera þetta talsvert á tímabilinu með Cardiff, að spila á laugardag, þriðjudag og laugardag. Ég er vanur þessu og maður verður að hlú að sér en ég verð klár á móti Frökkum, það er hundrað prósent.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert