Kannski smá fljótfærni

Viðar Örn Kjartansson snéri aftur í íslenska landsliðið með látum …
Viðar Örn Kjartansson snéri aftur í íslenska landsliðið með látum í kvöld en hann skoraði annað mark leiksins gegn Andorra á 80. mínútu. AFP

„Þetta hefur aðeins verið stöngin út hjá mér með landsliðinu og það var gott að brjóta ísinn í þriðja sinn,“ sagði Viðar Örn Kjartansson, annar markaskorari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í samtali við RÚV eftir 2:0-sigur liðsins gegn Andorra í fyrsta leik íslensla liðsins í undankeppni EM á Estadi Nacional vellinum í Andorra la Vella í kvöld.

„Það skemmir ekki fyrir að þetta hafi verið í keppnisleik og að markið hafi nokkur nvegin lokað leiknum fyrir okkur sem var yndislegt. Það er frábært að ná að skora í mótsleik, það er allt annað dæmi en í æfinga- eða vináttuleik. Að skora í endurkomunni er frábært og vonandi get ég byggt ofan á þetta. Það skiptir máli að vera með sjálfstraust í landsliðinu og vonandi hjálpar þetta mér að halda áfram á sömu braut.“

Viðar ákvað nokkuð óvænt að hætta að leika með íslenska landsliðinu í október á síðasta ári eftir að hafa samið við rússneska liðið Rostov.

„Ég ákvaða að hætta vegna þess að ég var kominn í nýtt lið og á fyrstu tveimur mánuðunum var ég búinn að fara í tvær ferðir með landsliðinu og var búinn að ná nokkrum æfingum með mínu nýja félagsliði. Ég var tæpur vegna meiðsla og var ekki að spila neitt með landsliðinu í þokkabót þannig að ég var í raun bara að fara til þess að fara. Á ákveðnu augnabliki tók ég þá ákvörðun að einbeita mér að mínu félagsliði og reyna stimpla mig inn þar því ég byrjaði ekki vel og ég þurfti á smá fríi að halda.“

Viðar var svo kallaður í landsliðið á nýjan leik fyrir leikina gegn Andorra og Frökkum og segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að snúa aftur.

„Ég er í góðu formi núna og þess vegna ákvað ég að snúa aftur í landsliðið. Þetta var rétt ákvörðun á þessum ákveðna tímapunkti á mínum ferli en kannski var hún tekin í smá fljótfærni.“

Viðar  fagnaði marki sínu með því að skjóta á félaga sinn Kjartan Henry Finnbogason, leikmann Vejle í Danmörku, sem skaut létt á Viðar þegar hann ákvað að snúa aftur í landsliðið.

„Félagi minn hann Kjartan Henry er aðeins búinn að vera grínast í mér í vikunni en við erum góðir félagar og þetta var allt í góðu gríni gert,“ sagði Viðar Örn Kjartansson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert