Óboðlegar aðstæður

Ari Freyr Skúlason
Ari Freyr Skúlason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erik Hamrén var þungur á brún þegar hann ræddi við fjölmiðlamenn í gær um Estadi Nacional, þjóðarleikvang Andorramanna þar sem ferðalag Íslands á EM karla í knattspyrnu 2020 hefst í kvöld.

Ísland hefur áður leikið á gervigrasi en gervigrasið í Andorra er einfaldlega ekki gott og á landsliðsþjálfaranum mátti skilja að svona aðstæður væru í raun óboðlegar þegar komið væri í eins mikilvæga leiki og þann í kvöld.

„Ég hef spilað á verra gervigrasi,“ sagði Ari Freyr Skúlason léttur í bragði þar sem hann skokkaði inn á völlinn á lokaæfingu landsliðsins fyrir leikinn, í kvöldsólinni í gær. Það er samt ekki sérlega góð einkunn fyrir þjóðarleikvang. Hamrén talaði umbúðalaust aðspurður um völlinn um leið og hann benti á að aðeins einn leikmaður íslenska landsliðsins spilaði á gervigrasi með sínu félagsliði, Birkir Már Sævarsson hjá Val:

„Það er gott að hafa gervigras til viðbótar við gras þegar þess þarf, sérstaklega í kaldari löndum eins og í Skandinavíu. En að mínu mati þá er undankeppni EM ekki vettvangur fyrir gervigras. Fótbolti á þannig velli er önnur tegund af fótbolta,“ sagði Hamrén.

Nánar er fjallað um landsleik Andorra og Íslands í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert