„Við töpum aldrei leik“

Vignir Garðarsson, Einar Heiðar Birgisson, Ríkharður Garðarsson og Guðmundur Rúnar …
Vignir Garðarsson, Einar Heiðar Birgisson, Ríkharður Garðarsson og Guðmundur Rúnar Einarsson voru hressir í miðborg Andorra la Vella í dag. mbl.is/Sindri

Fjórar heilladísir frá Breiðdalsvík verða meðal áhorfenda í Andorra la Vella í kvöld þegar Ísland byrjar undankeppni EM í knattspyrnu karla með leik við heimamenn kl. 19.45 að íslenskum tíma.

Talið er að um 150 Íslendingar verði á leiknum og þar á meðal verða að minnsta kosti þeir Guðmundur Rúnar Einarsson, Einar Heiðar Birgisson og bræðurnir Ríkharður og Vignir Garðarssynir, sem mbl.is rakst á fyrir utan veitingastað í miðborg Andorra la Vella í hádeginu. Óhætt er að segja að létt hafi verið yfir mannskapnum en kvartettinn ákvað að skella sér á leikina í Andorra og í Frakklandi á mánudag til að styðja við íslenska liðið í upphafi undankeppninnar.

„Það vantaði Andorra inn á kortið hjá okkur,“ segir Ríkharður. „Við fórum á EM í Frakklandi og vorum líka í Amsterdam þegar Ísland vann Holland 1:0. Það var geggjað, og í raun byrjunin á þessu rugli öllu,“ segir Guðmundur Rúnar, og vísar í ótrúlegt gengi íslenska liðsins sem farið hefur á tvö stórmót í röð og stefnir nú á það þriðja. Austfirðingarnir hafa bara upplifað góðar stundir á leikjum Íslands erlendis og eru vongóðir um að það breytist ekki núna:

„Já, við töpum aldrei leik. Nema hann [benda á Einar Heiðar] sem fór á leikinn við Frakkland í 8-liða úrslitunum á EM. Við vorum farnir heim þá. Við fórum ekki á neinn leik á síðasta ári og þá vann liðið ekki neinn leik. Við sáum að þetta gengi ekki svona lengur og ákváðum að fara af stað,“ segja þeir.

„Ef við töpum með minna en tveimur mörkum gegn Frökkum þá er ég ánægður en við verðum að fá þrjú stig í dag,“ segir Ríkharður. „Við getum alveg krækt í stig gegn Frökkum samt, það er allt hægt,“ er Guðmundur Rúnar fljótur að skjóta inn í, áður en Ríkharður bætir við: „Mér finnst bara holningin á liðinu ekki alveg nógu góð, menn eru ekki allir að spila með sínum liðum og svona. En við erum að veðja á að þeir snúi við blaðinu í kvöld.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert