Ánægður með hvernig hann svarar fyrir sig

Byrjunarlið Íslands í gær. Viðar Örn Kjartansson leysti Alfreð Finnbogason ...
Byrjunarlið Íslands í gær. Viðar Örn Kjartansson leysti Alfreð Finnbogason af hólmi þegar 20 mínútur voru eftir. AFP

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði hrósaði Viðari Erni Kjartanssyni fyrir góða innkomu í 2:0-sigrinum á Andorra í undankeppni EM í knattspyrnu í gær en Viðar skoraði seinna mark leiksins á þeim 20 mínútum sem hann spilaði.

Viðar fagnaði markinu af mikilli innlifun og sló svo á létta strengi með því að þykjast renna rennilás yfir munninn. Tilefnið var tíst Kjartans Henrys Finnbogasonar framherja, sem ekki var valinn í landsliðshópinn, en Kjartan skaut á Viðar eftir að sá síðarnefndi ákvað að hætta við þá ákvörðun sína að hætta í landsliðinu í haust:

„Ég ætla ekki að kommenta mikið á það [hvernig Viðar fagnaði] en ég er ánægður með hvernig hann kemur inn í þetta og svarar fyrir sig á vellinum. Þetta var frábærlega klárað og við þurftum á marki að halda. En ég ætla ekki að tjá mig eitthvað um fagnið. Ég held að þetta hafi kannski verið léttur „banter“ hjá honum, að svara fyrir sig. Auðvitað eiga menn bara að gera það á vellinum,“ sagði Aron við mbl.is.

„Ég er í góðu formi núna og þess vegna ákvað ég að snúa aftur í landsliðið. Þetta var rétt ákvörðun á þessum ákveðna tímapunkti á mínum ferli en kannski var hún tekin í smá fljótfærni,“ sagði Viðar sjálfur við RÚV í gærkvöld. „Félagi minn hann Kjartan Henry er aðeins búinn að vera grínast í mér í vikunni en við erum góðir félagar og þetta var allt í góðu gríni gert,“ sagði Viðar um fagnið sitt.

mbl.is