Reykjavíkurborg gagnrýnir KSÍ harðlega

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar sendi Guðna Bergssyni og KSÍ pillu í dag.
Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar sendi Guðna Bergssyni og KSÍ pillu í dag. mbl.is/Hari

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur sent frá sér tilkynningu vegna atviks sem átti sér stað í leik Stjörnunnar og Leiknis á Leiknisvelli í Lengjubikar karla í knattspyrnu um síðustu helgi. Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar, fékk að líta rauða spjaldið í leiknum fyrir niðrandi ummæli í garð Ingólfs Sigurðssonar, leikmanns Leiknis, sem hefur talað opinskátt um baráttu sína við geðsjúkdóma.

Þórarinn Ingi bað Ingólf afsökunar strax að leik loknum en aganefn KSÍ tók málið fyrir og ákvað að aðhafast ekki frekar í málinu. Manréttindaskrifstofa borgarinnar er allt annað en sátt með vinnubrögð KSÍ í málinu og hvetur aganefndina til þess að taka málið upp að nýju.

Tilkynningu mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar má sjá hér fyrir neðan:

Knattspyrna á að vera leikur án fordóma

„Um síðustu helgi gerðist það í leik Leiknis og Stjörnunnar að Þórarinn Ingi Valdimarsson leikmaður Stjörnunnar fékk rautt spjald fyrir ósæmileg ummæli í garð Ingólfs Sigurðssonar, leikmanns Leiknis. Ummælin beindust að veikindum Ingólfs en hann hefur sýnt það hugrekki að stíga fram opinberlega og fjalla um þunglyndi sem hann hafi átt við að stríða og hefur hann í þeirri umfjöllun fjallað sérstaklega um það hversu erfitt það sé í karllægum heimi fótboltans.

Aganefnd KSÍ sá ekki ástæðu til að gefa Þórarni lengra en hefðbundið eins leiks bann vegna málsins. Sá úrskurður fylgir ekki reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðamál en þar segir í 16. grein:

„Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt, og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti 5 leiki og banni frá viðkomandi leikvelli. Jafnframt skal félag viðkomandi sæta sekt að lágmarki að upphæð kr. 100.000. Ef sá brotlegi er forsvarsmaður liðs skal sekt félags nema að lágmarki kr. 150.000.“

Aganefndin er því ekki að fara eftir þeim reglum sem hún á að vinna eftir og sendir þau skilaboð að fordómar séu leyfilegir á vellinum. Greinin er skýr og veitir ekki bara heimild til að setja þann sem brýtur af sér heldur segir að viðkomandi skuli sæta leikbanni í minnst 5 leiki.

Nú hefur Guðni Bergsson formaður KSÍ sagt í viðtali við fótbolta net að skýrsla dómara hafi ekki verið nægilega vel útfyllt og því hafi aganefndin ekki getað úrskurðar samkvæmt 16. greininni. Sé það raunin er ástæða til að biðja dómarann um að fylla samviskusamlega út skýrsluna og að aganefndin taki málið upp aftur. Verði það ekki gert þá er aganefndin og þar með KSÍ að leggja blessun sína yfir fordóma.

Mannréttindaskrifstofu ber, samkvæmt mannréttindastefnu borgarinnar, að standa vörð um að borgarbúum sé ekki mismunað m.a. vegna heilsufars. Skrifstofan tekur undir tilkynningu frá Leikni um málið þar sem segir m.a. að KSÍ sé með þessum úrskurði ekki að vinna gegn fordómum heldur styðji við óásættanlega hegðun.

Skrifstofan sendir Ingólfi hlýjar kveður og hvetur aganefnd KSÍ til að taka upp málið aftur,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert