Aron greiddi Varane atkvæði

Kári Árnason og Olivier Giroud í glímu í 2:2-jafntefli Íslands ...
Kári Árnason og Olivier Giroud í glímu í 2:2-jafntefli Íslands og Frakklands í október, en Raphaël Varane virðist hafa misst af boltanum. AFP

Þrátt fyrir að Kylian Mbappé, Paul Pogba og Antoine Griezmann séu mest í sviðsljósinu af stjörnum franska fótboltalandsliðsins þá eru fleiri leikmenn í allra hæsta gæðaflokki í liðinu sem mætir Íslandi í undankeppni EM á Stade de France kl. 19.45 í kvöld.

Einn af lykilmönnum Frakka er hinn 25 ára gamli miðvörður Raphaël Varane. Varane átti frábært heimsmeistaramót og þar með sinn þátt í að tryggja Frökkum heimsmeistaratitilinn. Varane var einmitt valinn besti ungi leikmaðurinn á HM 2014 en hann var þá þegar búinn að stimpla sig inn í franska landsliðið.

Varane lék aðeins eina leiktíð í meistaraflokki í Frakklandi, með Lens, áður en José Mourinho ákvað að fá hann til Real Madrid árið 2011, þá aðeins 18 ára gamlan. Strax á öðru tímabili sínu hjá Real var Varane búinn að slá Portúgalann Pepe út úr byrjunarliðinu. Með Real hefur Varane unnið Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum og orðið Spánarmeistari í tvígang, auk þess að vinna fleiri titla.

Varane varð efstur varnarmanna í kjöri FIFA á knattspyrnumanni ársins í fyrra. Í kjörinu hafa atkvæðisrétt allir landsliðsfyrirliðar og landsliðsþjálfarar sem og einn fjölmiðlamaður frá hverju landi. Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði hefur mætur á Varane og setti hann í 3. sæti á sinn lista, á eftir Luka Modric og Cristiano Ronaldo. Hugo Lloris, fyrirliði og markvörður Frakka, setti Varane í efsta sæti hjá sér og var svo með Griezmann og Mbappé næsta þar á eftir. Varane endaði í 8. sæti í kjörinu.

Líklega mun Samuel Umtiti, miðvörður Barcelona, leika við hlið Varane í kvöld en Umtiti er ekki í mjög góðri leikæfingu og gæti Presnel Kimpembe úr PSG spilað í hans stað.

Raphaël Varane til varnar gegn Arnóri Sigurðssyni í Meistaradeildinni í ...
Raphaël Varane til varnar gegn Arnóri Sigurðssyni í Meistaradeildinni í október. Þeir gætu mæst að nýju í kvöld. AFP
mbl.is