„Dýrið“ gengur lengur laust í kvöld

Kylian Mbappé á móti Hannesi Þór Halldórssyni í Guingamp í ...
Kylian Mbappé á móti Hannesi Þór Halldórssyni í Guingamp í október. Mbappé gjörbreytti leiknum með sinni frammistöðu. AFP

Þegar Ísland og Frakkland mættust síðast, í vináttulandsleik í Guingamp í október, stal einn maður senunni og sá til þess að Ísland færi ekki með sigur af hólmi. Sá verður í sviðsljósinu í kvöld þegar Ísland og Frakkland mætast á Stade de France í undankeppni EM.

Birkir Bjarnason og Kári Árnason komu Íslandi í 2:0 í leiknum í október en skömmu eftir mark Kára, á 60. mínútu, var Kylian Mbappé skipt inn á. Mbappé er nánast ómennskur en sjaldan sjást fótboltamenn með svo mikinn sprengikraft og hraða samhliða miklum gæðum. Hafa ber í huga að Mbappé er aðeins tvítugur. Hann bjó að mestu til sjálfsmarkið sem Hólmar Örn Eyjólfsson skoraði á 86. mínútu og jafnaði svo metin úr vítaspyrnu á 90. mínútu, eftir að dæmd var hönd á Kolbein Sigþórsson.

„Það er svolítið spes að vera í þeirri stöðu að vera svekktur yfir því að gera jafntefli við Frakka,“ sagði Birkir Bjarnason við Morgunblaðið eftir leikinn en eins og aðrir sá hann vel hve miklu Mbappé breytti um gang mála: „Mér fannst að við hefðum átt skilið að vinna leikinn en þetta varð erfitt þegar þeir slepptu dýrinu (Kylian Mbappé) lausu undir lokin. 2:2 eru svo sem ekki leiðinleg úrslit gegn Frökkum á útivelli. Umræðan um okkur hefur verið svolítið neikvæð undanfarið og gott að geta sýnt að við séum enn þá hungraðir og að við viljum afreka meira,“ sagði Birkir eftir þennan leik í október.

Samkvæmt frönskum fjölmiðlum eru allar líkur á því að Mbappé verði í byrjunarliði Frakka í kvöld og fái mun fleiri mínútur en í Guingamp í október.

Mbappé hefur skorað 26 mörk í frönsku 1. deildinni í vetur og alls 31 mark fyrir PSG í öllum keppnum. Hann var valinn fjórði besti leikmaður heims í kjöri FIFA vegna ársins 2018.

mbl.is