Héngum inni þar til hann skoraði með maganum

Raphaël Varane og Kári Árnason í baráttu um boltann í …
Raphaël Varane og Kári Árnason í baráttu um boltann í kvöld. AFP

„Þetta var mjög erfiður leikur en það er algjör óþarfi að hann endi eins og hann gerði,“ sagði Kári Árnason landsliðsmiðvörður eftir 4:0-tapið gegn heimsmeisturum Frakka í undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld.

Frakkar voru 1:0 yfir í hálfleik og komust svo í 2:0 þegar rúmar 20 mínútur voru til leiksloka.

„Fyrstu tvö mörkin voru svolítið klaufaleg og við getum alveg komið í veg fyrir þau. Í fyrri hálfleik sköpuðu þeir lítið og það er spurning hvort við gætum verið meira „proactive“ og náð í eitthvað í seinni hálfleik, en eftir annað markið ýta bakverðirnir okkar framar á völlinn og þá erum við allt of opnir. Mark þrjú og fjögur komu í kjölfarið á því,“ sagði Kári.

Auðvelt að vera vitur eftir á

Kári var einn þriggja miðvarða sem Erik Hamrén stillti upp í 5-3-2 leikkerfi sem íslenska liðið hefur verið að prófa sig áfram með gegn sterkari þjóðum:

„Í fyrri hálfleik gekk þetta ágætlega og þeir sköpuðu lítið. Við getum alveg komið í veg fyrir fyrsta markið. Engu að síður var leikurinn þá áfram opinn og það munaði litlu að Gylfi setti boltann á réttum stað, og ég var óheppinn að ná honum ekki í einu föstu leikatriði þarna. Í seinni hálfleik voru menn bara þreyttir, enda fylgja þessu rosalega mikil hlaup á miðjunni. Það er mjög auðvelt að vera vitur eftir á en hugsanlega hefði verið hægt að breyta til og hafa fimm menn á miðjunni, færa einn hafsentinn fram. Við sáum að í fyrri hálfleik vorum við ekki að skapa nógu mikið af færum í þessu kerfi, þetta er svolítið passívt og þeir geta komið inn á okkar vallarhelming og byrjað að spila þar. Það eru plúsar og mínusar í þessu kerfi, þessu fylgja gríðarlega mikil hlaup á miðjunni og menn verða þreyttir. Það þarf kannski að fjölga á miðjunni í seinni hálfleik,“ sagði Kári, en gegn heimsmeisturunum ræður kannski ekki úrslitum hvert leikkerfið er:

Ætlum okkur tvo sigra í júní

„Þeir finna leiðir. Það er ástæða fyrir því að þeir eru heimsmeistarar. Þeir eru með frábæran þjálfara og hann finnur leiðir. Þeir áttu í erfiðleikum í fyrri hálfleik og vissu ekki alveg hvað þeir áttu að gera, en svo finnur hann lausnir við því og ýtir fleirum fram. Við vorum þá komnir enn þá fleiri aftur og svo fær Pogba flugbraut á miðjunni því við viljum ekki vera berskjaldaðir til baka,“ sagði Kári sem horfir nú til mikilvægra leikja við Albaníu og Tyrkland í júní.

„Að sjálfsögðu. Það var fyrir fram vitað að þetta yrði gríðarlega erfiður leikur en ég er ekki ánægður með að tapa eins og við gerðum. Við héngum inni í þessu lengi, þar til að annað markið kemur þegar hann skorar með maganum. Þetta var algjör óþarfi. Engu að síður var alltaf langsótt að ná í stig hér. En við ætlum okkur sigur í báðum leikjunum í júní,“ sagði Kári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert