Sannfærandi íslenskur sigur í Katar

Frá æfingu íslenska liðsins í Katar.
Frá æfingu íslenska liðsins í Katar. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U21 árs landslið karla í fótbolta vann sannfærandi 3:0-sigur á Katar ytra í vináttuleik í dag. Jónatan Ingi Jónsson skoraði fyrsta markið og varamennirnir Sveinn Aron Guðjohnsen og Jón Dagur Þorsteinsson bættu við mörkum í seinni hálfleik. 

Jónatan kom Íslandi yfir á 40. mínútu og var staðan í leikhléi 1:0. Jón Dagur Þorsteinsson og Sveinn Aron Guðjohnsen komu báðir inn á sem varamenn á 60. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Sveinn Aron. 

Ellefu mínútum fyrir leikslok bætti Jón Dagur við þriðja markinu og þar við sat. Axel Óskar Andrésson fékk rautt spjald á 83. mínútu, þrátt fyrir að hafa verið á varamannabekknum allan tímann. 

Ísland lék tvo leiki í Katar, en liðið gerði 1:1-jafntefli við Tékka síðastliðinn föstudag. Leikirnir voru þeir fyrstu undir stjórn Arnars Þór Viðarssonar og Eiðs Smára Guðjohnsen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert