Skorar Birkir enn á ný gegn Frökkum?

Birkir Bjarnason og félagar fagna markinu sem hann skoraði gegn …
Birkir Bjarnason og félagar fagna markinu sem hann skoraði gegn Frökkum í október. AFP

„Birkir er mjög góður leikmaður og afar mikilvægur fyrir okkur með sína hæfileika og reynslu,“ segir Erik Hamrén landsliðsþjálfari um Birki Bjarnason sem skorað hefur í þremur leikjum í röð gegn franska landsliðinu.

Birkir skoraði fram hjá Hugo Lloris þegar liðin mættust í 2:2-jafntefli í vináttulandsleik í október og hann skoraði einnig fram hjá franska fyrirliðanum í 5:2-tapi Íslands í 8-liða úrslitum EM árið 2016. Birkir, sem alls hefur skorað 11 mörk í 75 landsleikjum, skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í 3:2-tapi gegn Frakklandi í vináttulandsleik árið 2012, í einum af fyrstu leikjunum eftir að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson tóku við liðinu.

Birkir skoraði síðast í 2:0-sigrinum gegn Andorra á föstudag og lét ekki á sig fá að hafa sáralítið spilað fyrir Aston Villa á Englandi í vetur. Á blaðamannafundi fyrir leikinn við Frakka í kvöld var Hamrén spurður hvort Birkir væri einn mikilvægasti leikmaður liðsins þegar kæmi að því að sækja:

„Hann skoraði síðast gegn Frökkum, hann skoraði gegn Andorra, og það er ein af hans sterku hliðum að hann er góður miðjumaður en getur líka skorað mörk. Fyrir okkur er samt ekki hægt að hugsa um einn leikmann. Við verðum að vera góðir sem lið. Ef við skoðum þessi tvö lið þá eiga Frakkar fleiri leikmenn sem spila á hæsta stigi, með liðum í hæsta gæðaflokki. Við þurfum að vera mjög góðir sem lið því það er okkar styrkleiki. Ef okkur tekst það þá getum við komið hvaða liði sem er í opna skjöldu, eins og Ísland hefur gert í gegnum tíðina. Það er aðalatriðið fyrir okkur,“ sagði Hamrén.

Leikur Frakklands og Íslands í undankeppni EM hefst kl. 19.45 að íslenskum tíma eða kl. 20.45 að staðartíma.

Alfreð Finnbogason og Birkir fagna marki þess síðarnefnda í sigrinum …
Alfreð Finnbogason og Birkir fagna marki þess síðarnefnda í sigrinum á Andorra á föstudaginn. Ljósmynd/UEFA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert