Vænlegasti kosturinn að láta vaða

Hannes Þór Halldórsson varði glæsilega frá Olivier Giroud í fyrri ...
Hannes Þór Halldórsson varði glæsilega frá Olivier Giroud í fyrri hálfleik. AFP

„Þetta er svekkelsi og vond tilfinning,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, í samtali við RÚV eftir 0:4-tap fyrir Frökkum í undankeppni Evrópumótsins árið 2020 á Stade de France í kvöld. 

Frakkar eru ríkjandi heimsmeistarar og þeir léku afar vel, sérstaklega í seinni hálfleik. Ísland réð illa var stórstjörnur franska liðsins. 

„Við vorum að spila á móti frábæru liði sem er með mikil einstaklingsgæði á þeirra heimavelli með 80 þúsund manns að styðja þá. Það þarf ýmislegt að ganga upp til að ná í úrslit á svona velli. Við náðum að halda þeim ágætlega í skefjum í fyrri hálfleik og lengi vel í seinni.

Ef við hefðum hangið lengur í 1:0 hefði eitthvað getað gerst, en við vorum ekki beittir fram á við. Við vorum varnarsinnaðir. Við reyndum og gerðum okkar besta en það dugði ekki til og við töpuðum illa,“ sagði Hannes. 

Hann hefði getað gert betur í öðru marki Frakka, þegar hann kastaði sér á eftir boltanum þegar hann kom fyrir markið. Hannes lýsti markinu frá sínu sjónarhorni. 

„Það kom fyrirgjöf inn í teig og ég hendi mér út í hann. Ég næ snertingu en því miður ekki nægilega mikilli snertingu og boltinn fer í Giroud og inn. Það skapast stundum erfiðar aðstæður þegar boltinn fer á milli varnar og markmanns. Þá er vænlegasti kosturinn að láta vaða og ná snertingunni og það truflar oftast framherjann nógu mikið en því miður fór boltinn í hann og inn í þetta skiptið,“ sagði Hannes. 

mbl.is