Stærsta tapið í tólf ár

Frakkar fagna eftir sigurinn í gær en leikmenn íslenska liðsins …
Frakkar fagna eftir sigurinn í gær en leikmenn íslenska liðsins eru niðurlútir. AFP

Tapið gegn Frökkum í gærkvöld, 4:0, er stærsta tap Íslands í undankeppni stórmóts í karlaflokki í tólf ár, eða síðan íslenska liðið tapaði 5:0 fyrir Svíum í Stokkhólmi í undankeppni EM árið 2007.

Þetta er jafnframt stærsta tap Íslands gegn Frakklandi frá árinu 1957 þegar Frakkar unnu 8:0 og 5:1 í undankeppni HM. Frakkar hafa nú unnið 10 leiki og gert 4 jafntefli í 14 landsleikjum við Ísland.

Næstu tveir leikir Íslendinga í undankeppninni verða á Laugardalsvellinum í júní. Ísland og Albanía mætast laugardaginn 8. júní klukkan 13 og Ísland og Tyrkland eigast við þriðjudaginn 11. júní klukkan 18.45.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert