Strákarnir tryggðu sér sæti á EM

Strákarnir í U17 ára landsliðinu tryggðu sér í dag sæti ...
Strákarnir í U17 ára landsliðinu tryggðu sér í dag sæti í lokakeppni EM. Ljósmynd/KSÍ

Strákarnir í U17 ára landsliðinu í knattspyrnu tryggðu sér í dag sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer á Írlandi í maí.

Ísland mætti Hvíta-Rússlandi í þriðja og síðasta leik sínum í milliriðli undankeppninnar í Þýskalandi í dag og fagnaði 4:1 sigri.

Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmaður sænska liðsins Norrköping, skoraði tvö fyrstu mörkin á 13. og 49. mínútu, Andri Lucas Guðjohnsen, sem spilar með unglingaliði Real Madrid, skoraði þriðja markið á 73. mínútu og Andri Fannar Baldursson, sem nýlega samdi við ítalska liðið Bologna, skoraði fjórða markið úr vítaspyrnu á 86. mínútu. Hvít-Rússar, sem léku manni færri síðustu 20 mínúturnar, náðu að laga stöðuna á 88. mínútu.

Í hinum leiknum í riðlinum báru Þjóðverjar sigurorð af Slóvenum 1:0.

Íslendingar unnu riðilinn með 7 stig, Þjóðverjar urðu í öðru sæti með 5, Hvít-Rússar í þriðja sæti með 2 stig og Slóvenar ráku lestina með ekkert stig. Efsta lið riðlanna átta fer áfram í úrslitakeppnina, ásamt þeim sjö með bestan árangur í öðru sæti.

Evrópumótið verður haldið dagana 3.-19. maí en dregið verður í riðla í Dublin 4. apríl.

Byrjunarlið Íslands:

Ólafur Kristófer Helgason (M)

Róbert Orri Þorkelsson

Oliver Stefánsson (F)

Jón Gísli Eyland Gíslason

Valgeir Valgeirsson

Ísak Bergmann Jóhannesson

Andri Lucas Guðjohnsen

Davíð Snær Jóhannsson

Andri Fannar Baldursson

Orri Hrafn Kjartansson

Danijel Dejan Djuric

Þjálfari U17 ára landsliðsins er Davíð Snorri Jónsson

mbl.is