Þetta var illa tapað

Aron Einar í baráttu við Olivier Giroud á Stade de …
Aron Einar í baráttu við Olivier Giroud á Stade de France í gærkvöld. AFP

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, var eðlilega svekktur eftir 4:0-tapið gegn heimsmeisturum Frakka í gærkvöldi á Stade de France í undankeppni EM sem fram fer á næsta ári. Staðan í hálfleik var 1:0 og átti Ísland ágæta kafla.

„Maður hafði fína tilfinningu fyrir leikinn. Fyrri hálfleikurinn spilaðist eins og hann spilaðist. Mér fannst við vera nokkuð þéttir. Við vorum ekki að gefa of mörg færi á okkur. Við fengum svo mark á okkur sem við fáum ekki oft á okkur; seinni bylgja eftir fast leikatriði,“ sagði Aron um fyrri hálfleikinn. Íslenska liðið réð illa við franska liðið í seinni hálfleik og minnti hann Aron á leik liðanna í átta liða úrslitum á EM 2016 á sama velli, en Frakkar unnu þá 5:2.

„Seinni hálfleikurinn var svo eins og fyrri hálfleikurinn á EM. Þeir komust allt of mikið aftur fyrir okkur og við vorum ekki á tánum. Við náðum ekki að komast almennilega framan í þá. Kannski bárum við of mikla virðingu fyrir þeim. Þetta var illa tapað hjá okkur,“ bætti fyrirliðinn við. Hann viðurkennir að íslenska liðið hafi reynt að halda stöðunni í 1:0, þangað til skammt var eftir. Það gekk hins vegar ekki upp, þar sem annað mark Frakka kom á 68. mínútu.

Sjá allt um leik Frakklands og Íslands í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert