ÍBV sektað, tapar og kemst ekki áfram

ÍBV tefldi fram ólöglegum leikmönnum:
ÍBV tefldi fram ólöglegum leikmönnum: mbl.is/Golli

Knattspyrnusamband Íslands hefur sektað ÍBV um 90 þúsund krónur fyrir að tefla fram ólöglegum leikmönnum í leik gegn Selfossi í Lengjubikar kvenna 29. mars. ÍBV hefur einnig verið úrskurðaður ósigur, en leikurinn fór 2:0 fyrir ÍBV.

Þær Sara Suzanne Small og Laure Ruzugue léku með ÍBV í leiknum en eru skráðar í erlend félög. Í reglugerðum KSÍ um deildabikarkeppni segir meðal annars:

„Lið, sem mætir ólöglega skipað til leiks, skal sæta sekt að upphæð kr. 30.000 og að auki kr. 30.000 fyrir hvern leikmann sem ekki hefur keppnisleyfi með viðkomandi félagi og tekur þátt í leiknum.“

ÍBV hefur því verið sektað um 90 þúsund krónur, auk þess sem Selfossi var úrskurðaður 3:0 sigur í leiknum.

Þetta þýðir jafnframt að ÍBV á ekki lengur möguleika á að komast í undanúrslit Lengjubikarsins en þar á liðið eftir að mæta Stjörnunni. Það hefði verið hreinn úrslitaleikur um sæti í undanúrslitunum en nú er ljóst að Stjarnan fer þangað ásamt Val, Þór/KA og Breiðabliki.

mbl.is