Ánægður með þróunina í leik liðsins

Moon Mi-ra og Guðrún Arnardóttir eigast við í Chuncheon.
Moon Mi-ra og Guðrún Arnardóttir eigast við í Chuncheon. AFP

„Ég er mjög ánægður með úrslitin í þessari ferð okkar til Suður-Kóreu. Leikurinn í dag var aðeins rólegri heldur en sá fyrri en í heildina séð þá var ég ánægður með framlag leikmanna og þetta er gott veganesti fyrir okkur í komandi verkefni,“ sagði Jón Þór Hauksson þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu við mbl.is eftir 1:1 jafntefli við Suður-Kóreu í vináttuleik sem fram fór í Chuncheon í dag.

Suður-Kórea er í 14. sæti á styrkleikalista FIFA og er að undirbúa sig fyrir þátttöku í lokakeppni HM en Ísland er í 22. sæti á styrkleikalistanum.

Ísland vann fyrri leikinn á laugardaginn 3:2 þar sem Rakel Hönnudóttir skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og Rakel var aftur á ferðinni í dag og skoraði mark Íslands í leiknum þegar hún kom íslenska liðinu í forystu á 21. mínútu leiksins.

„Byrjunin hjá okkur í dag var nokkuð kröftug og var ákveðið framhald af fyrri leiknum. Við höfum unnið mikið með sóknaruppbyggingu og við komust yfir með góðu marki frá Rakel. Því miður héldum við forystunni aðeins í nokkrar mínútur og það sem eftir var að hálfleiknum vorum við í smá basli en engu að síður var ég ánægður með að við náðum að róa okkur niður í varnarleiknum í stað þess að lenda í eltingaleik við þær suðurkóresku,“ sagði Jón Þór.

Landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson ásamt aðstoðarþjálfaranum Ian Jeffs.
Landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson ásamt aðstoðarþjálfaranum Ian Jeffs. mbl.is/Hari

„Berglind var ansi nálægt því að koma okkur yfir í byrjun seinni hálfleiksins en annars vorum við meira í því að verjast í seinni hálfleiknum og mér fannst við gera það vel. Ég man ekki eftir að Suður-Kórea hafi fengið tækifæri að ráði í seinni hálfleik og með góðri liðsheild og vinnusemi náðum við að halda okkar hlut. Ég hef verið mjög ánægður með sóknarleik liðsins og erum búin að skora átta mörk í síðustu þremur leikjum. Ég er bara mjög ánægður með þróunina í leik liðsins sem gefur tilefni til bjartsýni,“ sagði Jón Þór en sterka leikmenn vantaði í íslenska liðið í þessari ferð því Sara Björk Gunn­ars­dótt­ir, Sif Atla­dótt­ir, Dagný Brynj­ars­dótt­ir, Margrét Lára Viðarsdóttir og Agla María Albertsdóttir fengu frí frá þessu verkefni.

Íslenska landsliðið hefur þátttöku í undankeppni EM í lok ágúst en Jón Þór vonast til að liðið spili tvo vináttuleiki í júní áður en undankeppnin hefst.

„Við fáum verkefni í júní sem er reyndar ekki alveg klárt hvert verður. Ég vonast til þess að við fáum tvo leiki og það verði þá lokaundirbúningur okkar fyrir undankeppnina,“ sagði Jón Þór en Ísland er í riðli með Svíþjóð, Ungverjalandi, Lettlandi og Slóvakíu.

Rakel Hönnudóttir skoraði mark Íslands í dag.
Rakel Hönnudóttir skoraði mark Íslands í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert