Stemningin í félaginu er áþreifanleg

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. mbl.is/Hari

Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, segir nokkrar ástæður vera fyrir því að hann kýs að flytja heim til Íslands á þessum tímapunkti eftir sex ár erlendis.

Á snærið hljóp hjá Valsmönnum en Hannes skrifaði undir samning við félagið í gær. Er ekki tjaldað til einnar nætur heldur er samningurinn til fjögurra ára.

Hannes tjáði Morgunblaðinu í gær að forgangsatriði hefði verið hjá sér að losna frá Qarabag í Aserbaídsjan en þar var hann í frystinum eins og hann orðaði það. Þegar ljóst var að hann gæti losnað þaðan hefði fjölskyldan komist að þeirri niðurstöðu að nú væri ágætur tímapunktur til að flytja aftur heim. Dóttir Hannesar væri til að mynda að komast á skólaaldur. Mögulega hefði verið hægt að skoða fyrirspurnir erlendis en þessi niðurstaða væri best þegar öllu væri á botninn hvolft.

Hannes segir nokkur félög hér heima hafa sýnt áhuga en með tilkomu ýmissa samskiptamiðla sé svolítið erfitt að segja til um hvað sé formlegt og hvað óformlegt. Hann hafi fengið ýmsar fyrirspurnir eftir ýmsum leiðum.

„Ég átti alls konar samtöl en það er loðin lína hvað er formlegt eða óformlegt. Ég hafði einhverja sannfæringu fyrir því að Valur væri rétti staðurinn ef ég kæmi heim. Mér finnst vera kraftur í félaginu og hér er einhver stemning sem er áþreifanleg. Metnaðurinn er mikill. Þeir hafa unnið deildina tvisvar í röð og mikill kraftur í öðrum íþróttum í félaginu. Yfir félaginu er atvinnumannabragur og aðstaðan er til að mynda flott. Mig langaði að upplifa þessa stemningu,“ sagði Hannes þegar Morgunblaðið ræddi við hann á blaðamannafundi í gær.

Sjá alla greinina á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert