Blikasigur í vítakeppni eftir sex marka leik

Leikmenn Breiðabliks fagna einu marka sinna í kvöld.
Leikmenn Breiðabliks fagna einu marka sinna í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Breiðablik mætir Val í úrslitaleiknum í deildabikar kvenna í knattspyrnu, Lengjubikarnum, á fimmtudaginn en það varð ljóst eftir sigur Blika á Þór/KA í vítaspyrnukeppni í Boganum á Akureyri í kvöld eftir að liðin skildu jöfn, 3:3, í bráðfjörugum leik. 

Þór/KA komst yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði með viðstöðulausu skoti eftir hornspyrnu frá Sögu Líf Sigurðardóttur, 1:0.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var fljót að jafna fyrir Breiðablik í upphafi síðari hálfleiks, 1:1. Karen María Sigurgeirsdóttir kom Þór/KA yfir á ný sex mínútum síðar, 2:1, en Agla María Albertsdóttir jafnaði fyrir blika, 2:2, á 79. mínútu.

Á lokamínútu leiksins skoraði síðan Lára Kristín Pedersen fyrir Akureyrarliðið, 3:2, og allt benti til þess að hún hefði tryggt því sigurinn. En í uppbótartímanum varð Arna Sif fyrir því að skora sjálfsmark, 3:3, og þar með þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá úrslitin.

Í vítaspyrnunni náðu Blikar undirtökunum þegar Stephany Mayor brást bogalistin fyrir Þór/KA strax í fyrstu umferð. Arna Sif og Kristín Dís Árnadóttir hjá Breiðabliki brenndu báðar af í fjórðu umferð en það var Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir sem tryggði Blikum 4:3 sigur í vítakeppninni með síðustu spyrnunni, og þar með 7:6 samanlagt.

mbl.is