Breiðablik er deildabikarmeistari

Breiðablik er deildabikarmeistari kvenna í fótbolta eftir 3:1-sigur á Val í úrslitaleik Lengjubikarsins á Eimskipsvellinum í Laugardalnum í dag. Staðan í hálfleik var 1:0, Breiðabliki í vil.

Það var svo sannarlega vorbragur á leik beggja liða í úrslitaleik Lengjubikarsins í dag. Leikurinn byrjaði með marki Kristínar Dísar Árnadóttur fyrir Breiðablik eftir horn hjá Öglu Maríu Albertsdóttur. Valskonur gáfu ekki tommu eftir í fyrri hálfleik og sköpuðu sér heilan helling af færum og meirihluta þeirra fékk Elín Metta Jensen. Því miður var hún ekki á skotskónum í dag og þar með sluppu Blikar með skrekkinn í fyrri hálfleik.

Bæði lið tókust á mikilli hörku en þrátt fyrir það var fínt flæði á boltanum og boðið upp á stórskemmtilegan fótbolta. Það var svo Karólína Lea Vilhjálmsdóttirsem jók forystu Blika á 55. mín þegar stal boltanum eftir slaka sendingu í vörn Vals og kláraði af mikilli yfirvegun framhjá Söndru í markinu, 2:0 fyrir Blika.

Valskonur reyndu hvað þær gátu til að minnka muninn en Blikakonur voru klókar og héldu haus lengi vel. Það þurfti svo skot frá Margréti Láru Viðarsdóttur til að minnka muninn, sem Sonný Lára Þráinsdóttir í marki Breiðabliks varði í kollega sinn í vörninnni og sjálfsmark staðreynd, 2:1. Leikurinn var sama og búinn enda lítið eftir á klukkunni en Karólína var ekki tilbúin að fara heim. Hún var frábærlega staðsett þegar hún fékk sendingu frá Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur og kláraði stórkostlega með föstu skoti, 3:1.

Pepsi Max-deild kvenna fer svo af stað 2. maí.

Valur 1:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Stórhættuleg fyrirgjöf frá Bergdísi sem Sonný þarf að henda sér eftir.
mbl.is