„Frábært vallarstæði í Eyjum“

Rúnar Páll Sigmundsson
Rúnar Páll Sigmundsson Ljósmynd/Oisin Keniry

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari bikarmeistara Stjörnunnar, fer með sína menn til Vestmannaeyja og mætir úrvalsdeildarliði ÍBV í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. 

Væntanlega er hægt að fá auðveldara verkefni í 32-liða úrslitum en að mæta ÍBV á útivelli? „Jú jú það er alveg satt. Þetta verður verðugt verkefni fyrir okkur. Reyndar er alltaf mjög gaman að koma til Vestmannaeyja og frábært vallarstæði að spila á. Til að komast áfram í bikarkeppninni þá þarf maður alltaf að spila vel. Við fórum í gegnum erfiða leiki í keppninni í fyrra og vitum að menn þurfa að eiga sinn besta leik til að fara áfram,“ sagði Rúnar þegar mbl.is spjallaði við hann í Laugardalnum í dag. 

Stjarnan sigraði á dögunum í Meistarakeppni KSÍ eftir vítaspyrnukeppni gegn Val. Rúnar segir stemninguna vera afar góða í leikmannahópi Stjörnunnar. „Stemningin er gríðarlega góð. Liðsheildin í okkar hópi er mjög sterk enda leikmenn sem þekkjast mjög vel. Við vitum alveg hvað við stöndum fyrir og hverjir okkar styrkleikar eru. Það er því mikil tilhlökkun fyrir því að hefja Íslandsmótið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert