Annar titill til Blika eftir risasigur

Lið Breiðabliks eftir sigurinn í dag.
Lið Breiðabliks eftir sigurinn í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Íslands- og bikarmeistarar Breiðabliks eru meistarar meistaranna eftir stórsigur á Þór/KA, 5:0, í Meistarakeppni kvenna í knattspyrnu en leikið var í Kórnum í dag. Blikar fögnuðu einnig sigri í Lengjubikarnum í síðustu viku.

Fyrri hálfleikur var markalaus, en samt nokkuð fjörugur. Bæði lið fengu sín færi, Þór/KA hættulegri ef eitthvað er, en þau skiptust svolítið á að stjórna leiknum. Það var hins vegar um miðbik síðari hálfleiks sem heldur betur dró til tíðinda.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir tók þá heldur betur af skarið fyrir Breiðablik. Hún kom Blikum yfir á 63. mínútu eftir að Bergþóra Sól Ásmundsdóttir vann boltann hægra megin og sendi fyrir, þar sem Áslaug Munda kom á ferðinni og skallaði í netið.

Hulda Ósk Jónsdóttir úr Þór/KA með boltann í leiknum í …
Hulda Ósk Jónsdóttir úr Þór/KA með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði hún aftur, nú eftir sendingu af miðjunni sem gaf henni svæði til að taka á rás að markinu. Hún kláraði þá færið vel eftir hörkusprett. Staðan orðin 2:0 á örskömmum tíma.

Áslaug Munda var hins vegar ekki hætt, því á 68. mínútu lagði hún upp þriðja markið. Hún var þá með boltann vinstra megin, renndi honum fyrir þar sem Hildur Antonsdóttir kom á ferðinni og skilaði honum í netið. Staðan 3:0 fyrir Breiðabliki.

Fjórða markið kom svo á 77. mínútu en það átti Sólveig Jóhannesdóttir Larsen algjörlega ein. Hún fékk boltann utan teigs, lagði hann fyrir sig og skoraði með fallegu skoti sem fór í háan boga og í netið. Sólveig skoraði svo fimmta markið skömmu fyrir leikslok þegar hún skoraði eftir klafs á teignum. Staðan orðin 5:0.

Það reyndust lokatölur leiksins og er Breiðablik því meistari meistaranna. Þetta er annar titill Breiðabliks á skömmum tíma á undirbúningstímabilinu, en liðið hrósaði sigri í Lengjubikarnum eftir sigur á Val í úrslitaleik í síðustu viku. Fyrsta umferð Íslandsmótsins hefst á fimmtudaginn í næstu viku.

Breiðablik 5:0 Þór/KA opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti tvær mínútur í uppbótartíma.
mbl.is