Fótboltinn 2019

Íslandsmótið í knattspyrnu hefst annað kvöld, föstudagskvöld, með leik Reykjavíkurliðanna Vals og Víkings í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni. Af því tilefni gefur Morgunblaðið í fyrramálið út veglegt sérblað, sem heitir Fótboltinn 2019, þar sem fjallað er ítarlega um öll 22 liðin sem leika í efstu deildum karla og kvenna.

Í blaðinu sem er 40 blaðsíður eru greinar um hvert lið fyrir sig, karlaliðin tólf og kvennaliðin tíu, skrifaðar af íþróttafréttamönnum og fréttariturum Morgunblaðsins, og rætt er við einn stuðningsmann frá hverju liði. Leikmannahópar liðanna eru birtir og skoðað hvernig hvert lið fyrir sig hefur breyst frá síðasta keppnistímabili.

Þá er í blaðinu ýmiss konar fróðleikur um keppnina í efstu deildum karla og kvenna, fyrr og nú. Heildardagskrá keppnistímabilsins er í blaðinu, deild, bikar, Evrópukeppni og landsleikir hjá báðum kynjum. Enn fremur er birt spá starfsfólks Árvakurs um hvernig lokaniðurstaðan verður í báðum deildum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert