„Rosalega spennt fyrir sumrinu“

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (20) réttir bikarinn til Ástu Eirar Árnadóttur …
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (20) réttir bikarinn til Ástu Eirar Árnadóttur eftir sigurinn á Þór/KA í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir átti alveg hreint stórfínan leik þegar Breiðablik vann öruggan 5:0-sigur á Þór/KA í leiknum um meistara meistaranna í knattspyrnu í Kórnum í dag.

Hún skoraði tvö mörk og lagði upp eitt, en um mikla þolinmæðisvinnu var að ræða hjá Blikum.

„Já, þetta var það. 0:0 í hálfleik en þetta kom síðan. Við opnuðum þær svo alveg með fyrsta markinu,“ sagði Áslaug Munda við mbl.is eftir leik. Það eru orð að sönnu, en eftir að hún skoraði fyrsta markið á 63. mínútu hafði hún skorað annað og lagt upp það þriðja strax á 68. mínútu!

Þetta var annar titill Breiðabliks á skömmum tíma, en liðið fagnaði sigri í Lengjubikarnum í síðustu viku. Áslaug Munda segir alltaf jafn gaman að vinna titla, og er mjög spennt fyrir Íslandsmótinu sem hefst eftir viku.

„Mér líst mjög vel á þetta og er rosalega spennt fyrir sumrinu. Háskólastelpurnar eiga svo líka eftir að koma, og mér finnst þetta bara geggjað,“ sagði Áslaug Munda, og vísar í að Blikaliðið á eftir að styrkjast enn meira.

Það stendur svo ekki á svari þegar hún er spurð hvort Blikar, sem eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar, stefni ekki á alla titla sem eru í boði í sumar: „Algjörlega!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert