Breiðablik skoraði tíu gegn Magna

Thomas Mikkelsen skoraði fjögur mörk fyrir Breiðablik.
Thomas Mikkelsen skoraði fjögur mörk fyrir Breiðablik. mbl.is/Hari

Breiðablik tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta með 10:1-sigri á Magna í Boganum á Akureyri í dag. Staðan var orðin 2:0 og Magnamenn manni færri eftir aðeins fjórar mínútur og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Breiðablik. 

Thomas Mikkelsen skoraði fjögur mörk fyrir Breiðablik, Höskuldur Gunnlaugsson þrjú, Þórir Guðjónsson tvö og Aron Bjarnason skoraði eitt mark. Kristinn Þór Rósbergsson minnkaði muninn í 2:1 á 16. mínútu er hann skoraði eina mark Magna. 

Sveinn Óli Birgisson og Arnar Geir Halldórsson fengu báðir rautt spjald hjá Magna. Sveinn Óli eftir aðeins fjórar mínútur og Arnar Geir undir lokin. 

KA er sömuleiðis komið í 16-liða úrslit eftir sannfærandi 5:0-sigur á Sindra á Hornafirði. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði þrennu á korteri í síðari hálfleik. Daníel Hafsteinsson og Brynjar Ingi Bjarnason höfðu áður komið KA í 2:0. 

mbl.is