Mikill hugur í okkur

Þórunn Helga Jónsdóttir í leik með KR á síðustu leiktíð.
Þórunn Helga Jónsdóttir í leik með KR á síðustu leiktíð. mbl.is/Hari

KR hefur styrkt leikmannahóp sinn fyrir átökin í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í sumar nokkuð vel en engu að síður er KR-liðinu spáð falli úr deildinni í spá sem þjálfarar, fyrirliðar og forráðamenn liðanna í deildinni tóku þátt í og var kunngerð í vikunni.

„Ég verð að segja að þessi spá kom mér pínulítið á óvart því ég hef sjálf töluverða meiri trú á hópnum heldur en þessi spá gefur til kynna. Ég held að það sé bara fínt að fá þetta í andlitið. Þetta tekur kannski einhverja pressu af okkur en stefnum auðvitað allar að því að gera betur en hvað þessa spá varðar,“ sagði hin reynslumikla Þórunn Helga Jónsdóttir í samtali við mbl.is.

„Breiðablik og Valur eru tvö bestu liðin í dag. Breiðablik er búið að sýna á undirbúningstímabilinu að það á fyllilega skilið að vera spáð Íslandsmeistaratitlinum. Valur er með virkilega góðan hóp þar sem mikil reynsla er til staðar. Ég held að Breiðablik og Valur komi til með bítast um titilinn.

Ég yrði sátt ef við myndum enda fyrir ofan miðju. Liðið okkar lítur töluvert betur út núna heldur en í fyrra. Það er mikil stemning í hópnum og við erum nýkomnar úr góðri æfingaferð erlendis. Við höfum fengið fullt af nýjum leikmönnum og höfum ekki náð heilum leik með öllum hópnum saman. Við eigum eftir að fínpússa aðeins hlutina en það er mikill hugur í okkur. Hópurinn okkar er stærri, breiðari og betri og ég er bara bjartsýnn á gott gengi í vesturbænum í sumar. Ég er virkilega spennt fyrir tímabilinu,“ sagði Þórunn Helga.

KR sækir HK/Víking heim í fyrsta leiknum annað kvöld en HK/Víkingi er einnig spáð falli úr deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert