Æskan í aðalhlutverki

Tyrkneska landsliðskonan Fatma Kara er í stóru hlutverki hjá HK/Víkingi.
Tyrkneska landsliðskonan Fatma Kara er í stóru hlutverki hjá HK/Víkingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lið HK/Víkings náði að halda sæti sínu í deildinni í fyrra, þrátt fyrir talsverðar hrakspár áður en Íslandsmótið hófst, og náði þar með stórum áfanga. Þetta sameiginlega lið tveggja félaga sem er rekið bæði í Reykjavík og Kópavogi hafði tvisvar áður unnið sér úrvalsdeildarsæti en í bæði skiptin fallið í fyrstu tilraun.

HK/Víkingur endaði í sjöunda sæti þegar upp var staðið, fékk 18 stig og hélt sér í deildinni af talsverðu öryggi og tókst að halda sér fyrir ofan mesta hættusvæðið alla síðari umferð mótsins.

Viðbúið er að HK/Víkingur þurfi áfram að berjast af hörku fyrir að halda velli í deild þeirra bestu. Tveir reyndustu leikmenn liðsins eru horfnir á braut, tvíburasysturnar Laufey og Björk Björnsdóttir. Laufey fór í KR og markvörðurinn Björk er komin í frí frá fótbolta í bili vegna höfuðmeiðsla. Þá er Margrét Sif Magnúsdóttir farin í FH en hún var drjúg síðasta sumar. Á móti kemur að bakvörðurinn þrautreyndi Kristrún Kristjánsdóttir er komin frá Stjörnunni, eftir eins árs hlé frá fótbolta, en hún vann sjö stóra titla sem fastamaður í Garðabæjarliðinu. Þá er Ana Victoria Cate komin frá Stjörnunni eftir að hafa leikið þar síðustu fjögur árin, en hún er nýbúin að eignast barn og stefnir á að vera með á lokasprettinum í sumar.

HK/Víkingur fer alfarið á gervigras í sumar. Liðið spilar allavega fyrstu þrjá heimaleikina í Kórnum en áætlað er að það leiki þá sex leiki sem eftir verða á nýju gervigrasi á Víkingsvellinum.

Tveir nýir markverðir eru komnir og slást um stöðuna. Halla Margrét Hinriksdóttir, sem á leiki í efstu deild með Breiðabliki, ÍA og Aftureldingu, og hin bandaríska Audrey Rose Baldwin sem lék áður með Fylki og Keflavík. Bakverðirnir eru með mikla reynslu, Kristrún vinstra megin og fyrirliðinn Tinna Óðinsdóttir, leikjahæsti leikmaður liðsins, er nú hægra megin. Gígja Harðardóttir hefur fært sig yfir í miðvarðarstöðuna í vetur og við hlið hennar er Margrét Eva Sigurðardóttir sem lék alla leiki liðsins í deildinni í fyrra.

Greinin í heild sinni er í sérblaði Morgunblaðsins, Fótboltinn 2019, sem kom út síðasta föstudag. HK/Víkingur fær KR í heimsókn í Kórinn í fyrstu umferð Íslandsmótsins í kvöld kl. 19.15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert