Rosalegt stress en þetta tókst

Marija Radojicic skoraði sigurmark Fylkis í kvöld og sækir hér …
Marija Radojicic skoraði sigurmark Fylkis í kvöld og sækir hér að marki Keflavíkur. mbl.is/Hari

Berglind Rós Ágústsdóttir fyrirliði Fylkis leysti sitt hlutverk vel í kvöld í fyrstu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu þegar hennar lið sigraði Keflavík 2:1 í Árbænum.

Hún spilaði mestmegnis á miðsvæðinu fyrir framan vörnina og var yfirburðamaður á vellinum, en undir lokin skellti hún sér í miðvarðarstöðuna og leysti það verkefni afbragðsvel.

Um leik síns liðs sagði hún „Við vorum mjög spenntar allan fyrri hálfleikinn enda fyrsti leikur í Pepsi, og nýliðaslagurinn, og bæði lið byrjuðu bæði vel. Þetta var mjög jafn leikur, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Við vorum ekki alveg nógu duglegar að skjóta á markið þótt það hafi verið lagt upp fyrir leikinn.“

Aðspurð hvaða stöður hún spilaði í leiknum segir hún „Ég var fyrst djúp á miðjunni, svo fór ég í miðvörð og svo endaði ég í hægri miðverði. Ég átti að hjálpa með að stoppa Sveindísi Jane og það tókst eftir markið sem hún skoraði. Hún (Sveindís) er mjög efnileg og hún stóð sig samt mjög vel í leiknum.“

Keflavík sótti í sig veðrið eftir að Fylkir komst yfir, en Berglind segir jafnframt „við náðum að stoppa þær og vorum góðar varnarlega séð. Þær voru meira með boltann í seinni hálfleik en það skilaði sér ekki hjá þeim. Þetta var rosalegt stress en þetta tókst. Næsti leikur er við Þór/KA á Akureyri og það verður mjög erfiður leikur enda alltaf erfitt að fara norður og spila þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert