Sætur sigur Kórdrengja

Kórdrengir byrja vel í 3. deild.
Kórdrengir byrja vel í 3. deild. Ljósmynd/Facebook-síða Kórdrengja

Kórdrengir fara vel af stað í 3. deild karla í fótbolta, en liðið vann sér inn þátttökurétt í deildinni á síðasta ári. Kórdrengir unnu Hött/Hugin á Framvellinum í dag, 2:1, í lokaleik 1. umferðarinnar. 

Sæbjörn Guðlaugsson kom Hetti/Hugin yfir á áttundu mínútu en Keflvíkingurinn Einar Orri Einarsson, sem lék í efstu deild með Keflavík síðasta sumar, jafnaði á 20. mínútu. 

Staðan í hálfleik var 1:1 og þannig var hún allt þangað til í blálokin er Kristinn Aron Hjartarson skoraði sigurmark Kórdrengja. 

Fjögur ný lið eru í 3. deildinni í ár vegna fjölgunar liða úr tíu í tólf. Þrír af nýliðunum unnu leiki sína í fyrstu umferðinni og þeir fjórðu gerðu jafntefli. Reynir úr Sandgerði vann 4. deildina í fyrra, Skallagrímur varð í öðru sæti, Kórdrengir í þriðja sæti og Álftanes í 4. sæti. Lið Álftaness bættist við í deildina eftir að Höttur og Huginn, sem  bæði féllu úr 2. deild, ákváðu að tefla fram sameiginlegu liði.

Staðan:

  1. Reynir S. 3
  2. Skallagrímur 3
  3. KV 3
  4. Kórdrengir 3
  5. KH 1
  6. Augnablik 1
  7. Álftanes 1
  8. KF 1
  9. Einherji 0
  10. Vængir Júpíters 0
  11. Höttur/Huginn 0
  12. Sindri 0
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert