„Við gáfum þeim auðveld mörk“

Grace Rapp í búningi Selfoss.
Grace Rapp í búningi Selfoss. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Við erum mjög svekktar yfir því að hafa tapað í kvöld. Við vorum staðráðnar í því að gefa þeim ekki neitt og börðumst vel og héldum okkar skipulagi,“ sagði Grace Rapp, leikmaður Selfoss, í samtali við mbl.is eftir leikinn gegn Breiðabliki í Pepsi Max deild kvenna í kvöld, þar sem Blikar höfðu 4:1 sigur.

 „Við gáfum þeim auðveld mörk, þær skoruðu auðveldlega úr föstum leikatriðum og það er eitthvað sem við þurfum að vinna í. Þetta leit betur út hjá okkur í seinni hálfleik, við héldum boltanum betur og spiluðum vel. Það er það sem við vorum að æfa í vikunni þannig að það er jákvætt að ná að taka það inn í leikinn. Undir lokin riðlaðist þetta aðeins og þær fóru aftur að fá pláss og komast afturfyrir vörnina hjá okkur,“ sagði Rapp og bætti við að Selfoss gæti tekið ýmislegt úr þessum leik til þess að byggja á í framhaldinu.

„Fyrir okkur, verandi lægra skrifaða liðið í þessum leik á móti meisturunum, þá held ég að við höfum sýnt karakter og baráttu sem við getum tekið með okkur í næstu leiki. Það er gott að við séum svekktar eftir þennan leik, það sýnir að við höfum viljann og við sýndum hvað við getum. Ef við spilum svona á móti öðrum liðum þá munum við ná úrslitum,“ sagði Rapp að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert